132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[12:31]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það fjáraukalagafrumvarp sem hér er til afgreiðslu er ítrekaður vitnisburður um lausatök í ríkisfjármálunum. Þar er að venju að finna milljarðaaukafjárveitingar, en frávik frá fjárlögum hafa sem kunnugt er verið á annan tug milljarða að meðaltali á undanförnum árum. 270 millj. kr. aukafjárveiting til sendiráða landsins er kristaltært dæmi um þá óráðsíu og það hversu langt menn ganga í að virða fjárveitingavald Alþingis að vettugi. Hér er Alþingi eftir á tilkynnt um þegar orðna hluti. Hér er verið að redda framúrkeyrslum frá fyrri árum og jafnvel ausa út fjárveitingum sem þegar liggur fyrir að verður ekki tóm til að eyða á yfirstandandi ári. Þessi gjörningur er alfarið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Honum þarf stjórnarmeirihlutinn í þinginu að kyngja við litla gleði og það verður að lýsa efasemdum um að ýmsar af þeim fjárveitingum sem hér er að finna standist ákvæði fjárreiðulaga.

Ég hvet nýjan hæstv. fjármálaráðherra til að taka á þessum skorti á reglufestu í tíð sinni sem fjármálaráðherra og breyta þeirri arfleifð sem hann hefur í þessu efni fengið frá hæstv. ráðherra Geir Haarde því að þinginu og ríkisstjórninni væri sómi að því að halda af þeirri festu á ríkisfjármálum sem gæti verið fordæmi stofnunum ríkisins og almenningi og atvinnulífi í landinu.

Samfylkingin mun við afgreiðslu þessa frumvarps sitja hjá enda er engin leið að styðja þau vinnubrögð sem þetta frumvarp endurspeglar.