132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[12:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Frumvarp til fjáraukalaga er að koma til atkvæða eftir 2. umr. Í þessu fjáraukalagafrumvarpi eru lögð til viðbótarútgjöld til hinna ýmsu málaflokka. Sum af þessum útgjöldum voru fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga á síðastliðnu hausti og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fluttu einmitt tillögur þá um að bæta þyrfti þar í við rekstur ákveðinna stofnana. Meiri hlutinn sá ekki ástæðu til þess en er síðan að koma með það inn nú við fjáraukalög.

Aðrar greiðslur sem þar eru lagðar til eru gæluverkefni einstakra ráðherra og koma ekki fjáraukalögum beint við. Til eru þær einstöku greiðslur þó sem eru eðlilegar á fjáraukalögum, t.d. neyðaraðstoð til hamfarasvæðanna í Kasmír en við nokkrir þingmenn höfum einmitt lagt til að fjárveitingar til aðstoðar þar verði auknar.

Ég hef lagt til á Alþingi að vinnureglum við gerð fjáraukalaga verði breytt, að frumvarp til fjáraukalaga komi að vori sem tæki til þeirra breytinga sem hefðu á orðið eða þyrfti að taka tillit til við afgreiðslu þingsins á fjárlögum, og svo aftur að hausti. Með þeim hætti bæri þingið ábyrgð og tæki ákvörðun um fjárveitingar eins og lög kveða á um. En það er óþolandi að þingið standi að langmestu leyti frammi fyrir gerðum hlut af hálfu framkvæmdarvaldsins eins og nú. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu því almennt sitja hjá við þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram og einnig við fjáraukalagafrumvarpið í heild. Þó eru þar ákveðin atriði sem við munum krefjast sératkvæðagreiðslu um og það kemur þá fram í atkvæðagreiðslunni.

Við höfum lagt fram eina breytingartillögu við fjáraukalagafrumvarpið um aukna fjárveitingu til mannúðarmála og neyðaraðstoðar vegna náttúruhamfaranna í Kasmír. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónsson. Þessi tillaga verður dregin til baka til 3. umr. í því augnamiði að reyna að ná víðtækri sátt og víðtækum stuðningi þingsins við aukin framlög til neyðaraðstoðarinnar við Kasmír við 3. umr. fjáraukalaga.