132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst það mjög alvarlegt að hæstv. utanríkisráðherra skuli svara eins og hann gerir á fremur litlausan hátt, kurteislega, nánast diplómatískan. Hér sýnist mér vera krafa á hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla um að ríkisstjórnin sýni að það renni blóð í æðum hennar. Fólk krefst þess að þessi flug séu fordæmd, fortakslaust fordæmd og við krefjumst þess hér í þessum sal af hæstv. utanríkisráðherra að hann fordæmi þessar misgerðir Bandaríkjamanna. Hann á auðvitað að gera það. Hann á að sýna okkur að honum renni í skap eins og okkur öllum þegar við sjáum að við höfum setið hér nokkuð aðgerðalaus á meðan fangaflug af þessu tagi hefur eflaust farið um flugvelli okkar og verið dulbúið sem borgaralegt flug. Allar vísbendingar benda til þess.

Hæstv. utanríkisráðherra á auðvitað að sýna viðbrögð sem eru honum sæmandi en ekki þá kurteisi sem hér hefur verið gagnrýnd.