132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel mig hafa undir höndum gögn og heimildir sem sanna það því miður að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir hafa verið misnotaðir í þessu skyni og ég get afhent ráðuneytinu þau ef mönnum er þægð í því.

Ég þakka svörin og ég þakka í sjálfu sér það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur aðhafst til að afla upplýsinga í málinu. En það sem á vantar er að íslensk stjórnvöld með formlegri tilkynningu til bandarískra stjórnvalda lýsi því yfir að þau vilji ekkert slíkt hafa hér á landi, hvorki á flugvöllum né í lofthelgi okkar með sambærilegum hætti og Danir hafa gert. Þrátt fyrir svör hæstv. ráðherra vantaði það upp á að það væri gert með formlegum hætti af íslenskra stjórnvalda hálfu að koma þeirri afstöðu okkar á framfæri sem hæstv. ráðherra lýsti í niðurlagsorðum sínum. Það er algerlega óásættanlegt að Ísland sé aðili að eða leggi slíkum lögbrotum og mannréttindabrotum lið sem þarna fara fram. Einmitt vegna aðildar Íslands að innrásinni í Írak og vegna aðgangs Bandaríkjamanna að Keflavíkurflugvelli er sérstök ástæða til að þetta sé gert skýrt og það er lágmark að íslensk stjórnvöld tilkynni Bandaríkjamönnum með formlegri orðsendingu að allt slíkt sé óheimilt og eftirleiðis verði slíku flugi vísað frá íslensku lofthelginni og lendi hér flugvélar engu að síður í þessum erindagerðum verði þær kyrrsettar, málin rannsökuð og föngunum um borð tryggð full mannréttindi. Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra telur sig enn vera að draga að upplýsingar í málinu þá hyggst ég, frú forseti, breyta fyrirspurn minni í beiðni um skriflegt svar þannig að hæstv. ráðherra geti þá svarað henni með formlegum hætti skriflega þegar þau gögn sem hann er enn að bíða eftir eru komin í hans hendur. En ég tel að það þoli ekki bið að íslensk stjórnvöld sendi frá sér formlega yfirlýsingu í þessum efnum og verði ríkisstjórnin ekki til þess þá á Alþingi að gera það og við munum taka það upp á vettvangi utanríkismálanefndar að það verði gert.