132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um veggjöld og spyr í fyrsta lagi:

Hvað líður stefnumörkun um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þ.e. veggjöld, sem ráðherra hefur ítrekað boðað að sé í vændum?

Ráðherra boðaði fyrir tveimur árum að niðurstöður stefnumörkunar um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja mundu liggja fyrir á síðasta hausti, þ.e. fyrir ári. Hvað er eiginlega að frétta af þeirri stefnumörkun? Það er ekki lítil ástæða til að spyrja vegna þess að í greinargerð með lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um hvernig skuli verja söluandvirði Símans er tekið fram að seinni áfangi Sundabrautar skuli unninn í einkaframkvæmd. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var engin svör að fá hjá hæstv. forsætisráðherra við því hvort hugmyndin væri að innheimta veggjöld af þeirri framkvæmd með svipuðum hætti og gert hefur verið af veggöngunum í Hvalfirði.

Tvenn áramót eru liðin og þau þriðju stutt undan. Hver er stefnan sem var mótuð? Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki gert samgöngunefnd Alþingis grein fyrir hugmyndunum eins og hann lofaði á sínum tíma? Munu tillögurnar tryggja að eitt verði látið yfir alla ganga hvað varðar veggjöld, eins og ráðherrann hefur sagt að ætti að felast í þeirri stefnumörkun? Svo spyr ég eins og venjulega hvert haust:

Hvenær kemur til framkvæmda boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjald í Hvalfjarðargöngum?

Hvar í ósköpunum er það mál statt? Heldur Framsókn því í gíslingu eða var aldrei innstæða fyrir loforðum hæstv. ráðherra um að lækka virðisaukaskatt af því gjaldi? Ég tel fulla ástæðu til að spyrja þar til svörin fást. Þau hafa ekki komið fram enn þá. Ég tel líka ástæðu til að ganga eftir þeirri stefnumörkun sem hæstv. ráðherra hefur lofað hvað varðar gjaldtöku af samgöngumannvirkjum.

Við höfum búið við það að í 20 ár borgi menn skatt í Hvalfjarðargöngin og borgi þau göng að fullu. Hugmyndir eru uppi um að skattlöndin haldi áfram að vera fyrir vestan og norðan, til að komast inn í höfuðborgina, en ekki verði innheimt gjöld ef menn koma að austan eða sunnan. Þetta er auðvitað óviðunandi, að menn viti ekki hvað stjórnvöld ætla sér með þessum veggjöldum. Ég ætla satt að segja að vona að hæstv. ráðherra tali skýrt um þau mál í þetta skiptið.