132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:53]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Ég vil að það komi fram að ég tel mikilvægt að hægt verði að ráðast í samgönguframkvæmdir með einkaframkvæmd og með gjaldtöku. Við höfum haft mikinn áhuga á því, mörg hver, að hægt verði að ráðast í meiri jarðgangagerð. Þar eru kannski fyrst og fremst nefnd Vaðlaheiðargöng, sem mjög mikill áhugi er fyrir. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að sú leið sé í boði til að fjármagna mikilvægar samgönguframkvæmdir.

Auðvitað er hægt að fara aðrar leiðir og lengri en með jarðgangaframkvæmdum næst veruleg stytting leiða sem hefur í för með sér sparnað fyrir notendur. Við reiknum með því að þessi kostur verði áfram til staðar og að ekki verði lagður steinn í götu þess að fara þá leið.