132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:54]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er til umræðu mikið misréttismál. Það er verið að mismuna ungu fólki, leggja álögur á ungt fólk á Akranesi og í byggðum Vesturlands, þaðan sem fólk sækir t.d. skóla til Reykjavíkur. Byggðunum norðan Hvalfjarðar er einnig mismunað þannig að ungt fólk, fjölskyldufólk sem flytur í auknum mæli að frá Reykjavík í smærri og þægilegri byggðir, velur síður byggðirnar norðan Hvalfjarðar. Í hvert sinn sem það þarf að sækja til Reykjavíkur, t.d. til að sækja vinnu, er fólki gert að greiða fyrir að ferðast um göngin á meðan fólk sem fer yfir Hellisheiði til Selfoss eða á Suðurnes ekur á vegum sem eru kostaðir af landsmönnum öllum. Þetta er ósanngirni sem verður að leiðrétta. (Forseti hringir.) Það er búið að skoða málin nógu lengi, frú forseti.