132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega ekki smekklegt hjá hv. málshefjanda að tala um gíslingu Framsóknarflokksins í þessum efnum. Þetta málefni er til skoðunar innan ríkisstjórnarinnar og milli ríkisstjórnarflokkanna. Það er mjög mikilvægt að við horfum til framtíðar í þessum efnum því Hvalfjarðargöngin verða ekki eina einkaframkvæmd Íslandssögunnar í vegagerð. Við horfum á Vaðlaheiðargöng og til Sundabrautar.

Ef fara á í breytingar hvað varðar veggjald í Hvalfjarðargöngum skapar það náttúrlega fordæmi gagnvart þeim framkvæmdum sem á eftir koma, það segir sig sjálft. Og það er mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að við höfum það í huga í þessari umræðu. Einkaframkvæmd í vegagerð er mjög mikilvæg. Hún flýtir mjög mikilvægum samgöngubótum, eins og ég nefndi áðan, t.d. Vaðlaheiðargöngum sem munu tengja saman Eyjafjörð og Þingeyjarsýslu og er gríðarlega þýðingarmikil aðgerð í byggðalegu samhengi. Ef við þyrftum að styðjast við vegáætlunina eina er alveg ljóst að sú framkvæmd væri ekki í augsýn. Hún er í augsýn vegna þess að við horfum til einkaframkvæmdar í þeim efnum.