132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að hrósa hæstv. samgönguráðherra. Þann 14. apríl í fyrra kom í ljós við fyrirspurn minni um tvöföldun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Víkurbraut að verkefninu yrði frestað vegna fjárskorts. Fimm dögum síðar lýsti samgönguráðherra því yfir að honum hefði tekist að fá fjármagn í verkefnið og núna einu og hálfu ári síðar er því nánast lokið. Fyrir þessa röggsemi fær hæstv. samgönguráðherra hrós enda er hér um að ræða einn fjölfarnasta þjóðveg landsins.

En nú spyr ég um framhaldið. Til stóð að tvöfalda Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ að Þingvallaafleggjara. Misvísandi upplýsingar berast um hvenær farið verði í þetta verkefni. Í júní talaði samgönguráðherra um að ekki sé skynsamlegt að fara út í breikkun á Vesturlandsvegi nema mikil seinkun verði á sjálfri Sundabraut. Á íbúafundi í Mosfellsbæ með Vegagerðinni var talað um að farið yrði í frekari tvöföldun eftir nokkur ár, nefnd voru tvö ár, þrjú ár og fimm ár.

Hér þarf, virðulegi forseti, að fá skýrari skilaboð. Frestað var að tvöfalda vegstubb frá Skarhólabraut að Langatanga. Í staðinn var farið í bráðabirgðaaðgerð, svokallaða 2+1, en hvað þýðir bráðabirgða? Erum við að tala um mánuði? Erum við að tala um ár? Erum við að tala um áratug?

Íbúar hafa bent Vegagerðinni á ýmsar hættur sem fylgja þessari bráðabirgðalausn, 2+1. Hraðinn eykst t.d. í suður og á löngum kafla er engin eyja á milli akreina. Eina eyjan sem er er á milli Túnahverfis og Skálatúns og þar er ávallt mikill skafrenningur og með þeirri eyju eykst enn hættan þar. Að auki er komið upp það hættuástand núna að fólk hreinlega nennir ekki að taka hægri beygju og fara upp á hringtorgið til að komast leiðar sinnar þannig að fólk tekur U-beygju strax hjá eyjunni. Af þeim sökum spyr ég hæstv. samgönguráðherra:

Hvenær hefjast framkvæmdir við tvöföldun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Langatanga í Mosfellsbæ og hvenær er áætlað að þeim ljúki?

Ekki er úr vegi að spyrja í leiðinni: Hvað kostar þessi bráðabirgðalausn, 2+1, hvað á hún að standa lengi? Jafnframt þýðir þetta aukinn kostnað fyrir Mosfellsbæ, þ.e. leggja þarf nýja vegi svo menn komist frá Skálatúni út á Baugshlíð annars vegar og hins vegar að íbúar í Túnahverfi komist til Reykjavíkur.