132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:37]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég fagna því að sjálfsögðu að Flugmálastjórn skuli hreyfa sig í þessum málum þótt svörin séu heldur klén. Ég mun ganga eftir því hvað kemur út úr þeim starfshóp síðar.

Staðreyndirnar í málinu eru þær að Harrier-þotur fengu leyfi til að fljúga hingað. Hverjar voru forsendur þess leyfis? Flugmálastjórnvöld á Íslandi vita að ratsjárkerfið „Precision Approach Radar“ er ekki til staðar á Keflavíkurflugvelli. Herinn er farinn með það heim, er að nota það annars staðar, í Írak eða einhvers staðar þar sem hann er að stríða og verja og vernda.

Í öðru lagi. Harrier-flugvélarnar eru ekki búnar þeim blindlendingartækjum sem þær þurfa að vera búnar. Þetta vissu menn og þar með var tekin áhættan á því, miðað við það veðurlag sem var fyrir hendi þegar þær leggja af stað, þær eru nefnilega tiltölulega fljótar að fara yfir hafið, að þær mundu þurfa að lenda í Reykjavík. Samt er leyfið veitt. Reglur þær sem gilda um lendingar í Reykjavík taka ekki tillit til hagsmuna íbúa hér og vinnustaða af þessari flugleið, norður–suður, sem liggur einmitt yfir Alþingishúsið.

Í öðru lagi, eins og ég er ánægður með hið fyrra svar, að komin skuli af stað einhver vinna hjá Flugmálastjórn, þá gildir ekki hið sama um seinna svarið, forseti. Hæstv. ráðherra svaraði spurningunni: Má eiga von á frekara lágflugi herflugsveita yfir miðborg Reykjavíkur og íbúðasvæðin umhverfis? Seinna svarið var ósköp einfaldlega já. Hæstv. ráðherra sagði: Já, við megum búast við frekara lágflugi herflugsveita yfir miðborg Reykjavíkur og íbúðasvæðin umhverfis meðan þessi flugvöllur er í Reykjavík. Það var þannig. Ráðherra svaraði þannig. Hann vonaðist til þess að þetta yrði undantekning en hann sagði að meðan þetta væri varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar mætti eiga von á því og að í einhverjum undantekningartilvikum mætti eiga von á því.

Þetta undantekningartilvik var reyndar þannig að fjórum áhöfnum herflugsveitar lá á að komast til Reykjavíkur á föstudegi. Þær voru hér yfir helgina og fóru á mánudegi. Ég vona að hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni líði vel með þær varnir.