132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn er í tveim liðum. Fyrri liðurinn er svo:

Hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja vegasamgöngur ef til eldgoss kemur í Kötlu?

Við vitum að ástandið er ekki venjulegt á Íslandi þar eð ýmis eldfjöll hafa farið að banka á dyrnar. Katla getur gosið hvenær sem er og við vitum, ef við horfum aftur til 1918 og Kötluhlaups sem þá var, að það getur orðið mjög alvarlegt og geta komið skvettur með óreglulegu millibili nokkru eftir að aðalhlaupið hefur runnið, gagnstætt því sem var t.d. í Skeiðarárhlaupinu síðara. Þannig getur orðið torvelt að byggja upp öruggar samgöngur um Kötlusand og Mýrdalssand ef hlaupið fellur þar.

Jafnframt liggur það fyrir að Hekla hefur risið það mikið að þar má búast við eldgosi en sennilega torveldar það ekki vegasamgöngur. Einnig má búast við að gos verði í Grímsvötnum auk þess sem Bárðarbunga hefur sýnt gamlar kenjar, gamla siði, en hvort tveggja getur valdið hlaupum, sérstaklega þó í Grímsvötnum ef Skeiðarárhlaup mundi endurtaka sig. Við gætum jafnvel líka átt von á hlaupi austur af Öskju.

Kjarni málsins er sá að reynslan af síðasta Skeiðarárhlaupi kenndi okkur að ekki er hægt að treysta á samgöngur um Suðurland ef til slíkra hamfarahlaupa kemur. Þá bjuggust menn við að vegurinn yrði lokaður í mánuð. Það reyndist ekki nema hálfur mánuður. En það var þó langur tími og olli mönnum erfiðleikum vegna þess að þeir urðu að fara norður um. Sérstaklega var það í Möðrudalsfjallgörðum sem þeir erfiðleikar urðu.

Nú stendur svo á að brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er eini farartálminn á hringveginum fyrir miklar flutningalestir. Við vitum að stundum hafa menn orðið að grípa til þess að fara yfir Jökulsá á Fjöllum á vaði. Það eru ekki nema hraustustu vatnamenn sem treysta sér til slíks en það hefur þó komið fyrir, eins og hæstv. samgönguráðherra er kunnugt.

Ég var svolítið undrandi á því þegar síðasta vegáætlun var lögð fram, að þar skyldi ekki gert ráð fyrir nýrri brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Ég tel nauðsynlegt að slík brú komi, ekki aðeins til að halda uppi samgöngum milli Norðurlands og Austurlands heldur og ef kæmi til hamfarahlaupa syðra til að halda hringveginum opnum, til að hægt verði að komast milli Austurlands og Reykjavíkur. Að því lúta spurningar mínar.