132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:53]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er frá því að segja um brúna á Jökulsá á Fjöllum að hún hefur verið í svipuðu ástandi í marga áratugi þannig að þar er ekkert nýtt á ferðinni. (HBl: Það er meira að segja önnur brú þar á undan.) Jafnframt er rétt að ítreka það og undirstrika að hér verða engar yfirlýsingar gefnar af hálfu samgönguráðherra um það hvenær verk sem ekki eru á samgönguáætlun, sem Alþingi hefur ekki afgreitt, verða boðin út. Þó að samgönguráðherrar séu áhrifamiklir þá gengur það ekki þannig fyrir sig að hægt sé að gefa yfirlýsingar um hvaða verk verða boðin út sem ekki hafa þegar fengið eðlilega meðferð við undirbúning samgönguáætlunar.

Hvað varðar umræðuna að öðru leyti þá er rétt að geta þess að auðvitað þurfum við að hafa ríkulega í huga þá vá sem stafar af eldgosum og við þurfum að huga að því hvernig við bregðumst við. Ég efast ekki um að almannavarnir og þeir sem fara með þau málefni hafa í sínum fórum traustar áætlanir um það hvað gæti gerst vegna þeirrar fyrirspurnar sem hér kom fram frá hv. þm. Björgvini Sigurðssyni.

Ég get ekki svarað því hvaða neyðaráætlanir liggja fyrir, eða eins og kom fram hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, hvaða brúarmannvirki gætu farið af, en slíkar áætlanir þarf auðvitað að vinna og þær þurfa að liggja fyrir. Við þurfum að átta okkur á því hvað gæti gerst og til hvaða ráða þarf að grípa til að endurbyggja brýr og vegi á þeim svæðum sem gætu orðið fyrir áföllum. Ég get ekki svarað þessu að öðru leyti en því að allar slíkar upplýsingar hljóta að liggja fyrir hjá almannavörnum.