132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Breikkun Suðurlandsvegar.

227. mál
[15:04]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Heldur þótti mér fara illa í hæstv. ráðherra þær eðlilegu og sjálfsögðu spurningar sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson bar fram. Eðlilega fagna allir vegabótum sama hvar þær eru og það gerum við á Suðurlandsvegi líka. Ég er ekkert hissa á þeim spurningum sem hér eru lagðar fram, vegna þess að þeir sem fara þennan veg daglega lýsa þeim sjónarmiðum sem fram koma í spurningunum og velta fyrir sér hvort hönnun vegarins hafi gert ráð fyrir þessu víravirki sem er á milli akbrauta eða ekki. Eðlilega velta menn því fyrir sér þegar þeir keyra þarna á einbreiðum vegi og axlirnar eru það mjóar að varla er hægt að víkja fyrir þeirri umferð sem þarf að komast fram úr, forgangsumferð, sjúkrabílum, lögreglu eða einhverju slíku. Við sem erum og vorum vön að keyra Reykjanesbrautina áður en hún var tvöfölduð vitum að breidd vegarins skiptir miklu máli og þær vegaxlir sem við þurfum að geta farið út á í ýmsum tilvikum. Því er ekkert óeðlilegt að spurt sé eins og gert var. Ef raunin er sú að ekki er um það að ræða að axlirnar séu nægilega breiðar eða vegurinn nægilega breiður hljóta menn að taka höndum saman um að skoða hvort ekki sé ráð að reyna að gera eitthvað í því.