132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Breikkun Suðurlandsvegar.

227. mál
[15:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir furðu minni á ákaflega ómálefnalegum og undarlegum viðbrögðum hæstv. samgönguráðherra. Það er sjálfsagt mál að spurt sé út í svo mikilvægar framkvæmdir á einum umferðarþyngsta vegi á Íslandi sem liggur upp að langumferðarþyngsta fjallvegi á Íslandi. Það er undarlegt að hæstv. ráðherra bregðist svo illa við því að spurt sé út í hvort þarna sé að eiga sér stað einhvers konar samgöngumistök þar sem vegurinn er ákaflega mjór, vegaxlir mjög mjóar og engin leið að sjá fyrir sér að hægt sé að hleypa til að mynda sjúkrabílum eða slíkri umferð fram úr þar sem vegaxlirnar eru hvað mjóstar og vegurinn einbreiður.

Rökstuddar ábendingar hafa komið fram um að vegurinn sé ansi fjarri því að vera í samræmi við þá staðla sem t.d. er stuðst við í Svíþjóð og ég nefndi ákaflega hvassa og harða gagnrýni frá stjórnarmönnum í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Það er skrýtið að hæstv. ráðherra sé svo styggur að ekki megi spyrja hann út í það málefnalega þannig að bregðast megi við því að ekki eigi sér stað alvarleg samgöngumistök á einni fjölförnustu leið á landinu. Sé þetta borið saman við aðrar mjög mikilvægar samgöngubætur eins og Reykjanesbrautina og þær fínu úrbætur sem þar hafa átt sér stað sést að þar er ansi mikill munur á. Eins harma ég að ekki er komin tímasetning á það hvenær breikkun á Suðurlandsvegi á að ljúka og ég harma hægaganginn sem virðist eiga sér stað með framkvæmdirnar og kemur fram í svari ráðherra.

Ég ítreka að það er mjög undarlegt að hæstv. ráðherra bregðist svona við, sérstaklega þar sem fram kemur í hans eigin svari að framkvæmdirnar þarna eru töluvert frá þeim grundvallarstöðlum sem stuðst er við t.d. í Svíþjóð þar sem töluverð hefð er fyrir slíkum vegum, þó það sé á svæðum þar sem veðurfar er miklu skárra og umferð jafnvel töluvert minni en hér um ræðir.