132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Breikkun Suðurlandsvegar.

227. mál
[15:07]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Í svari mínu kom fram að breidd þess vegar sem um er rætt er sú hin sama og lýst var jafnframt í svari mínu að gengur og gerist í vegagerð í Svíþjóð sem litið er til hvað þetta varðar.

Aðeins varðandi það að langt sé í land að okkur megi takast að ljúka þessari endurbyggingu Suðurlandsvegar í forminu 2+1 lengra og helst alla leið, þá hefur það auðvitað sinn gang. Við vinnum í samræmi við samgönguáætlunina og það er m.a. hlutverk þingmanna Suðurkjördæmisins að skipta á milli, t.d. skipta fjármagni á milli uppbyggingar á Suðurstrandarvegi, Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi, brúargerð á Suðurlandi o.s.frv. Það er því af mörgu að taka. Þetta er hins vegar sú niðurstaða sem Alþingi hefur komist að og er í samræmi við tillögur sem unnar eru í samgönguráði, samgönguráðuneytinu og í samgöngunefnd þingsins. Auðvitað viljum við að þetta gangi hraðar fyrir sig. Ég er fyrstur manna til að fallast á þau sjónarmið og vinn að sjálfsögðu í samræmi við það að við reynum að nýta fjármunina sem allra best og hraða framkvæmdum við endurbætur á vegakerfinu. Langflestar og í raun allar vegaframkvæmdir eru umferðaröryggisaðgerðir sem við þurfum að sjálfsögðu að leggja áherslu á. Að öðru leyti þakka ég fyrir umræðuna.