132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Bílaumferð og varpstöðvar.

262. mál
[15:34]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég tel fulla ástæðu til að ræða þessa hluti af mikilli alvöru. Ég tel að það þurfi í raun ekki svo mikið til til að gera bragarbót á. Ég kannast að sjálfsögðu við skiltin sem hæstv. ráðherra nefndi en þau eru á allt of fáum stöðum umhverfis landið. Ég vil nota tækifærið til að hvetja hæstv. samgönguráðherra til að beita sér fyrir því að Vegagerðin eigi frumkvæði að því að hafa samband við sveitarstjórnir og kynna fyrir þeim að fyrir hendi séu skilti sem setja megi upp tímabundið á slíkum stöðum.

Sveitarstjórnirnar gætu fengið skiltin send sér að kostnaðarlausu, séð um að koma þeim upp og tekið þau niður þegar því tímabili lyki. Það mætti líka koma af stað upplýsingaherferð, hvetja fólk til að hafa varann á og aka varlega þegar vart verður við fuglalíf meðfram þjóðveginum. Svona mætti lengi telja.

Þetta er svo mikill óþarfi. Menn þurfa ekki annað en rétt að slá af hraðanum, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson benti réttilega á. Þá leysist þetta af sjálfu sér. Fuglarnir eru að ég tel dýrmæt auðlind. Þeir koma hingað á sumrin, heimsækja okkur og eru okkur til mikils yndisauka. Ég tel það náttúruperlu út af fyrir sig, ekki bara fyrir okkur sem búum á Íslandi heldur líka fyrir ferðamenn sem koma hingað. Það er því full ástæða til að umgangast þá vini okkar af umhyggju og virðingu og að þessu linni. Eins og staðan er í dag er allt of mikið um að keyrt sé yfir fugla í stórum stíl.