132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Vegaframkvæmdir í Heiðmörk.

266. mál
[15:36]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á ráðstefnu um vatn sem samtökin Landvernd, BSRB og fleiri héldu þann 29. október síðastliðinn komu fram áhyggjur vegna vegaframkvæmda í Heiðmörk. Það er í sjálfu sér eðlilegt að þeir sem hugsa til framtíðar hafi áhyggjur þegar til stendur að fara í vegaframkvæmdir, ég tala ekki um ef þær eru stórfelldar og á svo viðkvæmu útivistar- og vatnsverndarsvæði sem Heiðmörk er. Heiðmörk er vatnsverndarsvæði og ber að vernda og virða sem slíkt enda aðalvatnsból íbúa á höfuðborgarsvæðinu og mikil framtíðarauðlind.

Hvernig veg hyggst samgönguráðherra ætla að leggja í Heiðmörk, hversu langan veg og hvar? Er verið að opna fyrir möguleikann á hraðbraut í gegnum Heiðmörk?

Í mastersritgerð Páls Stefánssonar, Framkvæmd vatnsverndar og stjórnun vatnsauðlindar á höfuðborgarsvæðinu, segir, með leyfi forseta:

,,Umferðinni í Heiðmörk er beint á veg nærri vatnsbólum. Mikil og þung umferð er eftir Elliðavatnsvegi inn á grannsvæði vatnsbólsins í Dýjakrókum. Líkansreikningar til að meta líkur á mengun vatnsbóla hafa aðeins verið gerðir fyrir hluta svæðisins. Olíuflutningar, mikill umferðarþungi og hætta á umferðarslysum er ákveðin ógn fyrir vatnsverndina. Breyta þarf akstursleiðum í Heiðmörk til að draga úr líkum á mengun í vatnsbólum vegna umferðaróhappa. Hagsmunir vatnsverndar þurfa að vega meira þegar kemur að því að skipuleggja umferðarmál á vatnsverndarsvæðinu.“

Af þessum sökum spyr ég hæstv. samgönguráðherra:

1. Hyggst ráðherra heimila Vegagerðinni að leggja bundið slitlag á veg um Heiðmörk? Ef svo er, hvenær hefjast framkvæmdir og hvenær er áætlað að þeim ljúki?

2. Hefur verið gert umhverfismat vegna þessara framkvæmda? Ef svo er ekki, verður það gert áður en þær hefjast?