132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Stofnun stjórnsýsludómstóls.

122. mál
[15:43]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef beint eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra:

Hvað líður hugmyndum ráðherra um stofnun stjórnsýsludómstóls?

Í Morgunblaðinu þann 27. september í fyrra var frétt þess efnis að ráðherra teldi fyllilega réttmætt að setja á stofn slíkan dómstól. Ég tek heils hugar undir þær hugmyndir og ég hef m.a. lagt fram, ásamt hv. varaþingmanni Atla Gíslasyni, þingsályktunartillögu þess efnis að hæstv. ráðherra skipi nefnd sem tæki til skoðunar hvort réttmætt væri að setja á stofn slíkan dómstól og geri tillögu um störf og starfshætti hans.

Hvers vegna er réttmætt að setja á stofn umræddan dómstól? Það er vegna þess að starfandi eru 42 úrskurðarnefndir víðs vegar sem kosta ærið fé. Árið 2003 kom fram í svari við fyrirspurn sem við lögðum fram, ég og hv. þm. Atli Gíslason, að kostnaðurinn við þær væri hvorki meira né minna en 336 millj. kr. Til samanburðar má nefna að samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2004 var kostnaður við Hæstarétt 103 millj. kr. Það er augljóst að með slíkum dómstól mætti ná fram sparnaði.

Annar möguleiki væri sá, ef menn fást ekki til að koma á stjórnsýsludómstóli, að færa verkefni til dómstóla frá úrskurðarnefndum. Einnig mætti sameina eitthvað af þessum úrskurðarnefndum því að þær eru 42 eins og áður segir. Mönnum væri í lófa lagið að skoða hvort ekki ætti að sameina eitthvað af þessum úrskurðarnefndum.

Önnur rök fyrir því að setja á stofn stjórnsýsludómstól eru þau að verulega skortir á að málsmeðferð hjá úrskurðarnefndum fari eftir ákveðnum reglum. Ég hef sjálfur orðið var við að misbrestur hefur verið á að farið sé eftir gagnsæjum leikreglum. Ég hef m.a. kvartað við úrskurðarnefnd um upplýsingamál varðandi það að Fiskistofa sendi inn gögn og úrskurðað var um mál án þess að málsaðili fengi að sjá þau gögn og fjalla um þau að einhverju leyti. Ég tel að það sé með öllu ólíðandi og þörf sé á að setja fastari reglur um þessa hluti, m.a. um málsmeðferð. Það er mín skoðun að rétt sé að setja (Forseti hringir.) einfaldlega á stofn stjórnsýsludómstól til þess að taka á málefnum stjórnsýslunnar, frú forseti.