132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Dánarbætur.

151. mál
[15:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um það hvort uppi séu áform um að endurskoða ákvæði um dánarbætur í skaðabótalögum. Ástæðan fyrir því að ég legg fram þessa fyrirspurn er sú að í tvígang hef ég lagt fram þingmál, þingsályktunartillögu um að endurskoða skuli skaðabótalögin, nr. 50/1993, og sérstaklega verði hugað að endurskoðun á þeim ákvæðum laganna sem snúa að bótum til eftirlifandi maka eða sambúðarmaka vegna missis framfæranda. Þetta mál snýst um 13. gr., en gerð var breyting á henni árið 1999 og ég held að þar hafi orðið mistök í lagasetningu. Þar er gert ráð fyrir þegar skaðabætur eru metnar til eftirlifandi maka, þegar fullfrískur maki hans fellur frá, að miðað er við örorku og dregnar frá fjárhæðinni þær bætur sem viðkomandi látinn einstaklingur hefði fengið frá Tryggingastofnun ríkisins úr slysatryggingum og sem örorkulífeyrisþegi frá lífeyrissjóði. Síðan kemur greiðslan til makans að því loknu.

Mig langar til að víkja aðeins að því hvernig þetta snýr að ekkju sem skrifaði grein í Morgunblaðið 5. mars 2004 eftir að hafa farið með svona mál fyrir Hæstarétt. Hér skrifar Ásta Kristín Siggadóttir, með leyfi forseta:

„Hvers virði er mannslífið samkvæmt íslenskum lögum þegar til þess kemur að meta það í krónum og aurum?“

Og hún segir, með leyfi forseta:

„Það er staðreynd að ég og börnin misstum fullfrískan heimilisföður, hann var heill heilsu áður en slysið henti hann. En þegar til þess kemur að fá bæturnar greiddar eru þær miðaðar við örorku. Við þessa aðferðafræði skaðabótalaganna er ég mjög ósátt, við misstum fullfrískan mann og teljum sanngjarnt að fá bætur reiknaðar út frá því sem hann aflaði sem slíkur.“

Síðan segir hún, með leyfi forseta:

„Þetta eru útreiknaðar upphæðir sem aldrei komu til greiðslu í þessu jarðlífi, en eru engu að síður dregnar frá sem um raunverulegar greiðslur hefði verið að ræða. Þetta eru mikil vísindi, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Svo farið sé hratt yfir sögu þá stóðu eftir 1,6 milljón króna sem skaðabætur þegar búið var að framkvæma allan þennan pappírslega örorkugjörning.“

Virðulegi forseti. Á 1,6 millj. kr. eru metnar þær bætur sem viðkomandi einstaklingur fær sem aflahæfi 45 ára gamals fullfrísks einstaklings fyrir vinnu hans næstu 22 árin. Nú er það svo að allsherjarnefnd Alþingis taldi líka fulla ástæðu til þess að breyta þessu og lagði hér fram þingmál (Forseti hringir.) í lok síðasta þings sem ekki náði afgreiðslu og var (Forseti hringir.) nefndin sammála um að þessu yrði að breyta. Því spyr ég hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hann sé sammála allsherjarnefnd þingsins.