132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Dánarbætur.

151. mál
[15:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. dómsmálaráðherra um að hann hyggist breyta þessari óréttlátu lagagrein og vona eins og hann að þetta komi til afgreiðslu á þessu þingi því að í þessu felst verulegt óréttlæti.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra. Nú hafa nokkrir misst maka sinn og lent í því óréttlæti sem felst í þessari lagagrein. Ég held að í þessu óréttlæti hafi lent um tíu eða tólf manns þegar ég lagði málið fram á síðasta þingi. Því vil ég spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þeir aðilar fái þetta að einhverju leyti leiðrétt. Nú veit ég að lagasetning virkar ekki aftur fyrir sig. En væri hægt að koma með bráðabirgðaákvæði þannig að þeir ekklar og ekkjur sem hafa lent í þessu mikla óréttlæti við að missa maka sinn geti að einhverju leyti fengið þetta leiðrétt því að þarna er náttúrlega þvílík ósanngirni á ferðinni að það er ekki hægt að búa við það þegar maður sér hvernig þetta bitnar á þeim sem hafa misst maka sinn í slysum eins og þarna?