132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Afleiðingar hlýnunar og viðbrögð við þeim.

156. mál
[18:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Ég beini fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um afleiðingar hlýnunar og viðbrögð við þeim og spyr:

1. Hvað hefur verið gert af hálfu umhverfisráðuneytisins til að bregðast við afleiðingum hlýnunar á norðurskautinu og aukinni skipaumferð um heimskautasvæðið í framhaldi af henni?

2. Hafa áhrif hlýnunarinnar á Ísland verið metin?

Nýverið sat ég mjög stóran fund fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Á honum voru ræddir möguleikarnir sem opnast við hlýnun norðurskautsins í að nálgast og vinna þær miklu olíu- og gasbirgðir sem eru undir norðurskautinu, en menn telja að um fjórðung allra olíubirgða heimsins sé þar að finna.

Fulltrúar þessara fyrirtækja geta vart beðið eftir því að aðgengi að þessum auðlindum opnist og það var á mönnum að heyra í umræðum þarna að fyrirtækin væru í startholunum og væru tilbúin að hefja vinnslu þarna um leið og möguleiki væri á að komast að þessum birgðum. Það er ekki aðeins olíu- og gasvinnslan sem við ættum að huga að heldur má búast við að skipaumferð opnist og auknir flutningar verði vegna þessarar vinnslu með mjög viðkvæma og mengandi vöru eða farma sem munu fara um hafsvæðið við Ísland. Ekki þarf mikið út af að bregða til að ímynd okkar sem hreins lands, ímynd okkar sem fiskveiðiþjóðar og hreinna sjávarafurða okkar eyðileggist, t.d. ef olíuslys yrði á veiðisvæðum okkar þar sem þessi skipaumferð mun að öllum líkindum fara um. Það þarf auðvitað að gera auknar kröfur um umgengni, öryggi, eftirlit og fylgjast vel með því sem fram undan er í þessum efnum.

Ég sá líka á þessum fundi það sem íbúar á norðursvæðunum sýndu þar sem verið var að vinna olíu út á hafi og á landi hrikalega mengun eftir olíuvinnsluna þar sem fyrirtækin höfðu ekki gengið vel um og ekki gengið vel frá þegar þeir hættu o.s.frv. Ég tel mjög mikilvægt að við Íslendingar leggjum mikla áherslu á norrænt samstarf í þessum efnum við að undirbúa þetta og einnig norðurslóðarsamstarfið sem er mjög mikilvægt. Ég var mjög áhyggjufull eftir að hafa hlustað á umræður á þeim fundum sem þarna voru. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra sem þekkir þessi mál vel hver undirbúningur okkar sé og hvort við séum í stakk búin t.d. til að bregðast við olíuslysi. Höfum við útbúnað til þess og hafa áhrifin af þeim breytingum sem verða við hlýnunina verið metin hér á landi?