132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Afleiðingar hlýnunar og viðbrögð við þeim.

156. mál
[18:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Fyrr á þessu ári kom út skýrslan Fyrir stafni haf – Tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum, sem samin var af starfshópi á vegum utanríkisráðuneytisins. Skýrslan fjallar um væntanlegar auknar siglingar eftir skipaleiðum um Norður-Íshafið og hugsanleg áhrif þeirra á Ísland og íslenska hagsmuni. Umhverfisráðuneytið kom að gerð skýrslunnar og er ítarlega fjallað um hugsanleg umhverfisáhrif af auknum siglingum á hafinu í kringum Ísland auk umhverfisáhrifa hugsanlegrar umskipunarhafnar sem kynni að verða gerð á Íslandi ef gámaflutningar hæfust í stórum stíl frá Asíu yfir til Atlantshafs eftir siglingaleiðum norðan Rússlands.

Rétt er að taka fram að loftslagsbreytingar eru ekki eina ástæðan fyrir því að í auknum mæli er horft til siglinga um leiðir í hánorðri. Þar koma einnig inn ýmsir pólitískir og efnahagslegir þættir. Líklegt er að flutningar á olíu frá Norðvestur-Rússlandi til Evrópu og Norður-Ameríku aukist á komandi árum óháð því hvort miklar breytingar verða á loftslagi og hafís enda eru nú þegar nokkrir skipaflutningar eftir þessari leið.

Í bréfi sem sent var út í mars 2005 óskaði umhverfisráðuneytið eftir því að starfshópur um varnir gegn mengun hafs og stranda tæki þessi mál til skoðunar með tilvísun í þær upplýsingar sem er að finna í skýrslunni Fyrir stafni haf. Óskað var eftir því að starfshópurinn kæmi með tillögur um viðbrögð vegna líklegrar aukningar á olíuflutningum um hafsvæði í kringum Ísland í náinni framtíð. Bent var á að hafa mætti samband við Norðmenn um þetta mál en þeir hafa aukið viðbúnað vegna vaxandi flutninga á olíu frá Múrmansk til Rotterdam um norska lögsögu. Samkvæmt upplýsingum frá formanni starfshópsins er að vænta tillagna fyrir lok þessa árs. Tillögurnar munu fyrst og fremst snúast um lagabreytingar svo sem um neyðarhafnir og siglingaleiðir. Enn fremur um nauðsynlegan öryggisbúnað og framhald vinnu við gerð vákorts fyrir strandlengju og strandsjó umhverfis landið með sérstakri áherslu á Austur- og Norðausturland og rannsóknir sem tengjast þessu.

Árið 2000 kom út skýrslan Veðurfarsbreytingar og afleiðingar þeirra, sem samin var af vísindanefnd um loftslagsbreytingar sem skipuð var af umhverfisráðherra. Í skýrslunni var gerð grein fyrir bestu þekkingu á alþjóðavísu um loftslagsbreytingar eins og hún birtist í niðurstöðum milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar. Þar voru skoðaðar afleiðingar loftslagsbreytinga á íslenskt samfélag. Meðal annars voru skoðaðar hugsanlegar afleiðingar hlýnunar á ástandið í hafinu, hækkun sjávarborðs, vatnafar og jökla, náttúruvá, lífríki lands og sjávar, fiskveiðar, landbúnað og heilsufar. Þessi skýrsla er ítarlegasta samantekt sem til er um þær afleiðingar sem loftslagsbreytingar kunna að hafa á Íslandi. Hún er aðgengileg á vef umhverfisráðuneytisins.

Síðan skýrslan var rituð hefur þekking manna á loftslagsbreytingum aukist þó að óvissan sé enn mikil. Þar ber ekki síst að nefna ítarlega úttekt á afleiðingum loftslagsbreytinga á norðurslóðum, svokallaða ACIA-skýrslu sem gerð var á vegum Norðurskautsráðsins. Sú úttekt var kynnt á ráðstefnu í Reykjavík á síðasta hausti og í nóvember sama ár samþykktu utanríkisráðherrar ríkja Norðurskautsráðsins stefnumótun um viðbrögð ríkjanna átta við niðurstöðum skýrslunnar á fundi sem einnig var haldinn í Reykjavík. Nokkrir íslenskir vísindamenn komu að ritun ACIA-skýrslunnar og íslenskir vísindamenn taka þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum tengdum loftslagsbreytingum varðandi áhrif þeirra á veðurfar, jöklabúskap, vatnafar, hafstrauma, lífríki o.fl. Búast má við að rannsóknir á þessu sviði muni eflast enn á næstu árum, m.a. vegna alþjóðaheimskautaársins 2007–2008 þar sem gert verður átak í rannsóknum á náttúru heimskautasvæðanna.