132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Umferð vélknúinna farartækja í ósnortinni náttúru.

241. mál
[18:14]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Segja má að yfirskrift þessarar fyrirspurnar sé öræfakyrrð en gæti líka verið prump í vélsleðum og bensínfnykur. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um aukna umferð alls konar vélknúinna farartækja um náttúru landsins, ekki einasta hefðbundinna bifreiða sem komast sífellt lengra og lengra vegna þess sem sumir vilja kalla tæknilegrar fullkomnunar, heldur ekki síður umferðar vélsleða á jöklum og vélbáta á vötnum.

Kveikjan að þessari fyrirspurn er reyndar grein eftir Guðjón Jensson, náttúruverndara úr Mosfellsbæ, sem hann skrifaði í Morgunblaðið í formi lesendabréfs þriðjudaginn 16. ágúst í sumar. Mig langar til að vitna til orða Guðjóns en hann segir, með leyfi forseta:

„Íslensk vötn eru einhverjar fegurstu náttúruperlur landsins. Yndislegt er að heyra kvak himbrimans, lómsins og álftarinnar langar leiðir, róa litlum árabát út á vatnið og njóta kyrrðarinnar. Undanfarin ár hef ég ásamt fjölskyldu, ættingjum og vinum átt ómældar ánægjustundir á Skorradalsvatni í Borgarfirði.“

Svo heldur Guðjón áfram — þessi grein heitir reyndar Skorradalsvatn — og segir okkur frá því að það sé tvennt sem trufli hann við þessa iðju, að róa á litlum árabát út á Skorradalsvatn, annars vegar áhrif Andakílsárvirkjunar á vatnið en hins vegar vaxandi umferð vélknúinna farartækja á vatninu. Og Guðjón segir í greininni, með leyfi forseta:

„Á dögunum rakst ég á nýuppsett skilti við Skorradalsveg í Hvammslandi þar sem vegfarendur eru hvattir að taka með sér bækling og kynna sér hraðbáta af ýmsu tagi. Mig rak í rogastans. Á boðstólum er m.a. hraðbátur með 640 hestafla Volvo penta vél sem getur komið bát þessum á ógnarhraða. Eldsneytistankurinn rúmar á fimmta hundrað lítra!“

Guðjón heldur áfram, og það er gaman að glugga í þessa grein hans af því að hann er vel pennafær, og spyr í lokin og reyndar spyr ekki heldur beinlínis skorar á ráðherra umhverfismála, Umhverfisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, Fuglaverndarfélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd, sveitarfélög landsins sem og alla aðra þá aðila sem málið varða að skoða þessi mál betur. Hann segir að nauðsynlegt sé að umhverfisráðuneytið setji í samvinnu við sveitarfélög sanngjarnar reglur um hávaða og hraðatakmörk vélknúinna farartækja á vötnum og tilgangurinn er augljós, segir Guðjón, „að koma í veg fyrir meiri röskun en þegar er orðin á þessum náttúruperlum landsins“.

Af þessu tilefni hef ég lagt þessar tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra, hvort til álita kæmi að setja sérstakar reglur um umferð vélknúinna báta á ám og vötnum og til hvaða aðgerða hæstv. ráðherra hafi gripið vegna aukinnar umferðar utan merktra slóða á hálendinu.