132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Davíð Oddsson var þangað til fyrir nokkru utanríkisráðherra á Íslandi og formaður Sjálfstæðisflokksins. Sem utanríkisráðherra fór hann auðvitað með öll utanríkismálefni, samskipti okkar við aðrar þjóðir, og þar á meðal málefni okkar gagnvart samstarfi gegn loftslagsbreytingum og um rannsóknir á loftslagsbreytingum. Umhverfisráðherra hæstv. er auðvitað fagráðherra í þeim efnum og þess vegna vekur það sérstaka athygli þegar Davíð Oddsson sagði á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og skildi þar með eftir arfleifð sína í umhverfismálum, að Kyoto-samþykktin byggðist á afar ótraustum vísindalegum grunni. Samt væri kannski ráð að líta til hennar, en þetta væri þannig. Því miður er þetta ekki þannig að Davíð Oddsson sé persónulega að tjá álit sitt heldur virðist þetta ríma við klausur sem lesa má í ræðum hæstv. umhverfisráðherra á þingum sem hún hefur farið á. Mér hefur líka verið bent á núna, eftir að þessi fyrirspurn kom fram, ræðu Gunnars Pálssonar, sendiherra í ACIA-samtökunum, þar sem hann hefur mjög snúið við blaðinu frá því sem hann sagði áður og talar núna um að það sé umræða um þessi mál fram og aftur og menn séu með miklar öfgar í þessu og láta beri vísindin sanna sitt mál áður en nokkuð verði aðhafst.

Það vekur auðvitað athygli að þau viðhorf sem ég er hér að lýsa, frá íslenskum stjórnvöldum og Davíð Oddssyni á landsfundinum, ríma nokkuð við afstöðu öfgahægrimanna í Ameríku sem teygja sig nú reyndar inn í stjórnkerfið þar og inn í Hvíta húsið með George Bush sem þar er forseti. En þau eru þannig að í raun og veru beri ekki að taka mark á þessum vísbendingum. Þetta séu vísindamenn sem eru eitthvað að leika sér, við eigum ekki að berjast á móti þessum loftslagsbreytingum heldur að sjá hvernig þær verði og reyna þá að græða á þeim það litla sem hægt er.

Því spyr ég hæstv. umhverfisráðherra, og gef henni færi á að svara því áður en hún tekur fyrir okkar hönd þátt í Montreal-ráðstefnunni sem fram undan er, í lok nóvember og í desember, um afstöðu hennar til Kyoto-samþykktarinnar og til þess hvað taka eigi við af Kyoto-samþykktinni, eins og sjá má í fyrirspurninni á þingskjali 296. Ég gef henni þar með kost á að bregðast snarplega við og skýra fyrir okkur þessa stefnu íslenskra stjórnvalda sem vafi leikur á um núna og virðist raunar — af því hér gengur í salinn hv. þm. Siv Friðleifsdóttir — mega lesa þannig að þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tóku við utanríkis- og umhverfisráðuneytunum hafi þeir breytt um stefnu í þessum málum frá því sem var þegar Framsóknarflokkurinn fór með þessi ráðuneyti. (Forseti hringir.)