132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er alveg ástæða til þess að efast um heilindi íslenskra stjórnvalda þegar Kyoto-bókunin er annars vegar. Við erum öll minnug þess að ekki var hún fullgild fyrr en ljóst var að við fengjum undanþáguákvæðið okkar samþykkt um 1 milljón og 600 þúsund tonna losunarkvóta án þess að fyrir kæmi nokkurt gjald eða neitt slíkt. Það er ekki að ófyrirsynju að menn hafa áhyggjur og spyrja spurninga eins og hv. fyrirspyrjandi. Ég sakna þess að hæstv. umhverfisráðherra skuli ekki hafa sagt neitt um hvað eigi að gera eftir 2012 þegar fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar lýkur. Allir vita að hér er á fleygiferð undir forræði ríkisins stóriðjustefna og áform um stóriðjuver sem sprengja allar heimildir sem Kyoto-bókunin heimilaði Íslendingum. Það er ekki að ófyrirsynju að fólk spyr: Hvað ætla stjórnvöld að gera eftir 2012? Það vantar svar við því.