132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:35]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af 3. lið fyrirspurnarinnar, spurningu um hvort taka eigi mið af Kyoto-bókuninni eftir 2012, lýsa yfir þeirri skoðun minni að við höfum ekkert fyrirkomulag annað en Kyoto-bókunina til að taka á þessum málum. Mér finnst því einsýnt að menn hljóti að byggja á henni. Þess vegna finnst mér líka við hæfi að heyra hvort hæstv. umhverfisráðherra hefur velt því fyrir sér hvað við gerum. Nú fengum við íslenska ákvæðið, 1,6 milljón tonna. Það var fráleitt að vera á móti því ákvæði enda voru allir umhverfisráðherrar heimsins að lokum á því að styðja það af því það er átta sinnum betra fyrir andrúmsloftið að framleiða ál á Íslandi heldur en með olíu og kolum eins og gert er víðast hvar annars staðar. Því er mjög merkilegt að Vinstri grænir hafi ekki stutt það fyrst þeir hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum. En það er eðlilegt að spyrja: Hvað svo? Munum við viðhalda þessu ákvæði eða hvernig verður staðið að framhaldinu?