132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra. Þessi mál virðast vera á ágætri hreyfingu þó að þau mættu eflaust vera komin lengra á veg. Ég held að allir hljóti að geta verið sammála um að eigendur þessara farartækja, torfæruhjóla, eigi í raun og veru inni hjá stjórnvöldum vegna þess að innflutningur á þessum farartækjum hefur aukist alveg gríðarlega á undanförnum missirum og menn borga náttúrlega tolla og aðflutningsgjöld af þeim og það sé bara sanngjörn krafa að fólk fái eitthvað í staðinn. Stjórnvöld þurfa náttúrlega að stuðla að því að ólöglegum akstri utan vega linni og þessari íþrótt verði komið í viðunandi horf á lokuðum svæðum. Ég get reyndar ekki ímyndað mér annað en að einhver sóknarfæri hljóti að vera falin í því fyrir sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarinnar að bjóða einmitt upp á slíka aðstöðu.