132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:50]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að þessu máli skuli vera hreyft hér. Það er stærra en margan grunar og mikið umhverfismál. Að þessu sinni liggur vandamálið ekki hjá ökumönnum eins og margur vill eflaust halda fram heldur er það, eins og hér hefur komið fram, skortur á aðstöðu. Vélhjólaíþróttamenn hafa oft kallað eftir henni og ég fagna því að ráðherra skuli hlýða því kalli. Eins og skýrt hefur komið fram eru þeir stækkandi hópur og að sjálfsögðu eiga þeir rétt á æfingaaðstöðu og íþróttaaðstöðu eins og aðrir hópar innan íþróttahreyfingarinnar.