132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Æfingasvæði fyrir torfæruhjól.

291. mál
[18:51]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessi ágætu svör. Fram kemur í alveg glænýju minnisblaði frá Umferðarstofu frá 24. október 2005 að verið er að innheimta vörugjald, virðisaukaskatt og skráningargjöld af þessum hjólum. Það er auðvitað óviðunandi að vélahjólaeigendur geti síðan illa nýtt hjól sín. Það er því mjög brýnt að bæta úr aðstöðunni. Það er rétt að komin eru í notkun nokkur svæði en þau þurfa að vera miklu fleiri og þau þurfa líka að verða betri. Framtíðardraumurinn hlýtur að vera sá að hérna verði góð, sérútbúin, lokuð æfinga- og keppnissvæði. Þar verði góðar brautir og þar verði gætt eins mikils öryggis og hægt er. Þar verði líka aðstaða fyrir keppendur, hús þar sem fólk getur komið inn og stundað félagsstarfsemi, þar sem áhorfendur, foreldrar og aðrir aðstandendur geta verið.

Í þessu sambandi þarf líka að setja skýrar reglur um hvað má og hvað má ekki í þessari þrótt. Þar þarf verulega að bæta úr. Það þarf einhver að taka þetta að sér og það er mjög óþægilegt fyrir þennan áhugahóp að vera alltaf vísað sitt á hvað. Umræddum hópi hefur verið svolítið vísað á milli aðila og það verður einhver í stjórnsýslunni að taka þetta að sér. Það væri ef til vill eðlilegt að setja á nefnd þar sem í væru fulltrúar frá þeim ráðuneytum sem málið snerta, þ.e. umhverfisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti — þetta er íþróttagrein og er að fara undir ÍSÍ — félagsmálaráðuneyti vegna sveitarstjórnarmálanna, hugsanlega Samband íslenskra sveitarfélaga og að sjálfsögðu VÍK, Vélhjólaíþróttaklúbburinn sjálfur, hann þarf að vera með. Það þarf því einhver einn miðlægur aðili að vaka yfir þessum málaflokki og koma á einhvers konar stefnumótun þannig að við sjáum betri framgang.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. umhverfisráðherra tók undir að æfingasvæði væru allt of fá og vildi gjarnan beita sér í því í samstarfi við aðra að bæta þar úr.