132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Spilafíkn.

99. mál
[19:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þau svör sem hann flutti hér úr ræðustól Alþingis. En ég verð nú að lýsa því yfir að ég hefði gjarnan viljað fá ítarlegri svör við þessu alvarlega ástandi sem virðist því miður blasa við enda er líka búið að stofna sérstök samtök til stuðnings þeim sem lenda í þessu. Það hlýtur að vera umhugsunarefni í allri þeirri miklu peningalegu veltu sem er í kringum þessa spilakassa hvort ekki væri eðlilegt að hluti af þeirri upphæð rynni beint til þess að affíkla þessa spilafíkla. En í stað þess lendir þetta á skattgreiðendum

Það er kannski minnsta málið í þessu. Aðalmálið er að geta veitt þessu fólki þá þjónustu og meðferð sem má leiða til þess að það geti aftur farið að lifa eðlilegu lífi og sé ekki nánast handbendi þessara spilakassa sem því miður hefur of oft komið upp á. Enn fremur hefur hér oftar en ekki verið sagt frá fjölskylduharmleikjum sem hafa myndast vegna spilafíknar. Ég skil mætavel orð hæstv. heilbrigðisráðherra sem talar um að hér hafi ekki verið nægur tími til að fá ítarlegri upplýsingar. Síðar mun gefast betra tækifæri bæði til að vera með betri fyrirspurnir og markvissari og þá munu svörin væntanlega verða í samræmi við það.