132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Rafræn sjúkraskrá.

257. mál
[19:06]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa hér þessu mikilvæga máli.

Á fyrri hluta ársins 2004 samþykkti ríkisstjórnin stefnumörkun um upplýsingasamfélagið fyrir tímabilið 2004–2007 og birtist hún í skýrslunni Auðlindir í allra þágu sem forsætisráðuneytið gaf út sama ár. Í skýrslunni sem tók við af fyrri stefnumörkun um sama efni frá árinu 1996 segir m.a.:

„2. Tekin verði markviss skref varðandi innleiðingu á rafrænni sjúkraskrá fyrir alla heilbrigðisþjónustu, jafnt á sjúkrastofnunum sem á heilsugæslustöðvum og hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum. Fram fari kostnaðarmat og fyrir liggi framkvæmdaáætlun árið 2004.“

Á árinu 2004 fékk heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið til samtals við sig fyrirtækið ParX viðskiptaráðgjöf og IBM Business Consulting Services til að meta stöðu mála og skilgreina helstu verkþætti í upplýsingavæðingu heilbrigðiskerfisins. Í skýrslu fyrirtækjanna frá því síðari hluta ársins 2004 er því haldið fram að fjárfesting í rafrænni heilbrigðisþjónustu muni fela í sér verulegan fjárhagslegan ávinning og stuðla jafnframt að auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Það var mat umræddra fyrirtækja að ráðast þyrfti í fjárfestingar fyrir tæplega 2 milljarða kr. til að byggja upp frá grunni heilbrigðisnet og rafræna sjúkraskrá á þriggja til fjögurra ára tímabili. Önnur leið kæmi einnig til greina. Væri sú að byggja og þróa þá upplýsingatækni sem þegar er í notkun hjá heilbrigðisstofnunum víðs vegar um landið. Fyrri leiðin fæli þannig í sér umtalsverð fjárútlát á stuttum tíma en aftur á móti skjótan fjárhagslegan ávinning. Síðari leiðin þýddi hins vegar minni bein útgjöld næstu árin en ábatinn yrði kannski ekki sá sami og ef fyrri leiðin væri valin. Heildarkostnaðurinn gæti orðið meiri til lengri tíma í síðara tilvikinu en því fyrra.

Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið telur hins vegar að ekki sé hægt að fullyrða neitt um þetta því að mörg dæmi eru um að kostnaður hafi farið úr böndunum þegar of geyst er farið í upplýsingavæðingunni. Það sýnist því raunhæft að reikna með að fjárfestingarþörfin samkvæmt síðari leiðinni muni í heild nema u.þ.b. 1 milljarði kr. á fyrrgreindu þriggja til fjögurra ára tímabili.

Landspítalinn – háskólasjúkrahús setti á stofn á árinu 2003 nefnd til að skipuleggja og stjórna gerð rafrænnar sjúkraskrár á sjúkrahúsinu. Verkefni nefndarinnar snýr einkum að innleiðingu Sögu-kerfisins við rafræna skráningu og úrvinnslu heilsufarsupplýsinga ásamt tengingu þess við önnur upplýsingakerfi sjúkrahússins. Við uppbygginguna hefur verið farin sú leið að byggja á einingum sem eru samþættar í eina heild frekar en taka í notkun eitt stórt kerfi sem á að leysa allar þarfir spítalans.

Fyrsta útgáfa rafrænnar sjúkraskrár hefur þegar verið tekin í notkun á öllum deildum Landspítala – háskólasjúkrahúss og er gert ráð fyrir að samfelld sjúkraskrá og upplýsingakerfi, rafræn lyfjaumsýsla og fleiri lykilverkefni verði komin í fulla notkun á spítalanum fyrir árslok 2008. Landspítali – háskólasjúkrahús gerir ráð fyrir að alls verði varið rúmlega 500 millj. kr. til fjárfestingar í upplýsingatækni á spítalanum á tímabilinu 2006–2008 og er sú tala í stórum dráttum í samræmi við fyrrgreint mat ráðuneytisins á fjárfestingarþörfinni.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.