132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alkunna að breytingar á fjármálamarkaði ásamt því að stofnuð hefur verið Byggðarannsóknastofnun á Akureyri hafa breytt mjög starfsskilyrðum Byggðastofnunar. Umfang lánastarfsemi stofnunarinnar hefur minnkað og umsækjendur um lán eru auk þess oft verr í stakk búnir til að standa undir lánum en áður. Stofnunin hefur því verið rekin með tapi undanfarið.

Byggðastofnun er m.a. ætlað að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, undirbúa, skipuleggja og fjármagna verkefni, veita lán með það að markmiði að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Þetta er ekkert smáræðis hlutverk. En stofnunin hefur því miður afar litla möguleika til að sinna þessu hlutverki sínu. Einmitt þess vegna heyrast óánægjuraddir eins og alltaf þegar stofnun er fært mikið verkefni en ekki aðstæður til að inna það sómasamlega af hendi. Það er ljóst að mikil þörf er á stuðningi við uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni, ekki síst á svæðum sem eiga í erfiðleikum vegna hnignunar hefðbundinna starfsgreina og lágra meðaltekna sem fylgja í kjölfarið.

Á fundi þingmanna Norðvesturkjördæmis með Fjórðungssambandi Vestfirðinga nýverið lýstu heimamenn mikilli ánægju með starfsemi Byggðastofnunar og þeirri skoðun að illa væri fyrir Vestfjörðum komið ef hennar nyti ekki við. Jafnframt var lýst áhyggjum af stöðu Byggðastofnunar og voru þingmenn hvattir til að vinna að eflingu hennar. Það er því afar mikilvægt að ljúka boðaðri úttekt á Byggðastofnun nú þegar og hefja vinnu með niðurstöðurnar vegna þeirra sem stofnunin þjónar, vegna stofnunarinnar sjálfrar og vegna starfsfólksins, en allir þessir aðilar hanga í raun í lausu lofti á meðan ekkert kemur frá hæstv. ráðherra, yfirmanni Byggðastofnunar. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvað líður gerð úttektar sem boðuð var á síðasta þingi að gerð yrði á starfsemi Byggðastofnunar?

2. Ef niðurstöður liggja fyrir, hvernig er þá fyrirhugað að nýta þær og hefur sú vinna hafist?

3. Hvar eru niðurstöður aðgengilegar fyrir þingmenn, liggi þær fyrir?