132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvað líði úttekt á starfsemi Byggðastofnunar. Eins og fram kom í svari mínu til hv. fyrirspyrjanda á síðasta þingi var unnið að greiningu á ytri þáttum í starfsumhverfi Byggðastofnunar sem og innri þáttum í þeirri starfsemi. Þeirri greiningu er núna lokið. Þá spyr hv. þingmaður hvernig fyrirhugað sé að nýta þær niðurstöður. Meginniðurstaða greiningar á stöðu Byggðastofnunar er að stofnunin eigi við verulegan vanda að stríða, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, fjárhagsstaðan sé mjög erfið og fátt bendir til þess að fjármögnunarstarfsemin geti að óbreyttu orðið fjárhagslega sjálfbær. Í greiningunni kemur fram að þetta sé ekki óumbreytanlegt og til staðar séu tækifæri til að móta nýjar stefnur og áherslur með því markmiði að gera starfsemina markvissari og sérhæfðari. Slíkum breytingum megi e.t.v. ná fram með áherslubreytingum innan núverandi skipulags en einnig komi til greina stærri breytingar sem þá fælust í uppstokkun og endurskilgreiningu á bæði fjármögnunar- og atvinnuþróunarstarfseminni.

Í kjölfar þess að greiningin lá fyrir skipaði ég starfshóp um framtíðarþróun Byggðastofnunar. Er hópnum ætlað að meta báða þá málaflokka sem starf Byggðastofnunar hvílir á, þ.e. fjármögnunarstarfsemina annars vegar og verkefni á sviði atvinnuþróunar hins vegar. Hópnum er ætlað að meta þessa málaflokka með tilliti til eftirfarandi: Samfélagslegra markmiða og hlutverks ríkisins í byggðamálum. Möguleika markaðarins á því að leysa ákveðin verkefni er tengjast núverandi starfsemi Byggðastofnunar. Að unnt verði að stunda fjármögnunarstarfsemi án aukinna fjárveitinga og að atvinnuþróunarstarfsemin geti tekist á við framtíðarverkefni á sviði nýsköpunar. Vinna starfshópsins hófst í sumarbyrjun og stendur enn. Vonir standa til að hópurinn skili af sér mjög fljótlega.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvar eða hvort niðurstöður séu aðgengilegar þingmönnum. Niðurstöður úttektarinnar sem hv. fyrirspyrjandi vísar til liggja fyrir í iðnaðarráðuneytinu og eru aðgengilegar þingmönnum. Þær eru, eins og áður segir, grundvöllur tillögugerðar þess starfshóps sem ég hef skipað.