132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta eru mjög sérkennileg viðbrögð sem koma hér af hálfu hv. þingmanna þegar ég greini frá að skýrslan sé í iðnaðarráðuneytinu sem er unnin fyrir iðnaðarráðherra vegna Byggðastofnunar, og það hefði held ég átt að dreifa henni á hv. Alþingi. Hv. þingmenn verða að átta sig á muninum á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins í þessum efnum. Málið er hjá iðnaðarráðherra og það er iðnaðarráðherra sem er að móta tillögur um hvernig skuli tekið á þeim vanda. En hins vegar greindi ég frá því að skýrslan er í iðnaðarráðuneytinu og ef beðið verður um hana er ég ekki að segja að ekki sé möguleiki á að hv. þingmenn fái hana. En að sjálfsögðu er henni ekki dreift á Alþingi meðan að málið er til meðferðar í ráðuneytinu, það held ég að allir hljóti að skilja ef þeir á annað borð hafa áhuga á að vera málefnalegir í umræðunni.

Hins vegar er ekkert launungarmál að stofnunin er komin niður fyrir þau 8% í eigið fé sem lög kveða á um að skuli vera til staðar og það þýðir að grípa þarf til aðgerða. Það eru mikilvæg störf á Sauðárkróki, um 20 störf, sem að sjálfsögðu stendur ekki til að hrófla við. En hins vegar hef ég opnað á þann möguleika eins og ég nefndi áðan og lengi hefur verið áhugi fyrir og ekki síst í tengslum við gerð byggðaáætlunar, og hefur farið fram umræða um það, hvort ekki væri mikilvægt að samræma meira atvinnuþróunarstarfsemina sem er viðhöfð af hálfu ríkisins. Ekki er hægt að neita því að hún er í nokkuð mörgum stofnunum og er nokkuð sundurtætt eins og er. Því hefði verið áhugavert að skoða það a.m.k. hvort ekki væri ástæða til að samræma hana frekar. En ég geri mér fulla grein fyrir því að 20 störf á Sauðárkróki eru mjög mikilvæg og ég hef sagt það og sagði það á aðalfundi stofnunarinnar að ekki stæði til að flytja þau í burtu. Þessi mál eru til meðferðar og ekki síst þessa dagana erum við að fjalla um hvernig tekið skuli á málinu til skemmri tíma þar sem eiginfjárstaðan er komin niður fyrir lögleg mörk.