132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Ábyrgð Byggðastofnunar.

234. mál
[19:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hafna því algerlega að ég hafi verið með dylgjur. Ég held því fram að ég hafi talað hreint út og ekkert verið að dylgja. Ég fer ekki leynt með skoðanir mínar og vonbrigði með störf hæstv. ráðherra. Ég vona að hún geri sér grein fyrir því að ég er ekki að dylgja. Þetta er því miður staðan og þetta er einnig eins og margir á landsbyggðinni upplifa störf hæstv. ráðherra. Það er ekki sama hvar vandinn er.

Hér er lesið upp úr lögum, jú, jú, en hver er afstaða hæstv. ráðherra til þess að við þingmenn fáum ekki frá stjórnarmanni hennar, frá stjórnarmanni Byggðastofnunar sem hún ber pólitíska ábyrgð á og ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því, hvers vegna fáum við ekki á okkar borð t.d. greinargerð? Við verðum að átta okkur á að málið snýr ekki endilega að okkur þingmönnum heldur almenningi. Það er almenningur sem á hlutafé í þessu fyrirtæki. Auðvitað eigum við að fara vel með það. Málið snýst um það.

Hæstv. ráðherra taldi sér til tekna að hún hefði hugsað mikið um Vestfirði og komið með vaxtarsamning vestur. Það er rétt en ég vil minna á að hæstv. ráðherra gerði annað líka og það var að senda ákveðin ólög vestur. Hún setti minnstu handfæratrillurnar í kvótakerfi. Bara sú aðgerð leiddi til þess að tekjur vestfirskra útgerða skertust um 500 milljónir meðan þessi vaxtarsamningur er upp á 70 milljónir, ef ég man rétt, á þrem, fjórum árum, og sveitarfélögin og fyrirtækin þurfa einnig að leggja þar eitthvert mótframlag.

Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hugsa sig eilítið um áður en hún hreykir sér af verkum sínum fyrir vestan.