132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Magnússyni fyrir að taka þetta mál upp. Það er greinilega og sannarlega ástæða til.

Svör hæstv. forsætisráðherra koma hins vegar á óvart og vekja upp miklar spurningar. Því verður vart trúað að ríkisstjórnin hafi ekki leitt hugann að því að að sjálfsögðu hlyti að koma upp sú eðlilega krafa að sambærilegar kjarabætur skiluðu sér til þeirra sem fá framfærslu sína í gegnum greiðslur úr tryggingakerfinu eða frá Atvinnuleysistryggingasjóði, enda er gert ráð fyrir því í lögum að kjör þessara hópa taki mið af þróun á launamarkaði. Eða muna hæstv. ráðherrar það ekki? Þess vegna hlýtur að vera eðlilegt að líta til þess þegar greidd er sérstök launauppbót, eingreiðsla af því tagi sem nú á að verða hluti af kjörum jafnt almenna vinnumarkaðarins sem opinberra starfsmanna ef ég veit rétt. Ef ég hef tekið rétt eftir í gær kom það þar fram að sambærilegar greiðslur mundu ganga yfir þann hluta vinnumarkaðarins.

Hér er um að ræða 26 þús. kr. í eingreiðslu nú í desember og það munar um minna fyrir hópa sem eru að reyna að draga fram lífið af mánaðartekjum langt undir 100 þús. kr. eins og þeir gera sem ekkert hafa sér til framfærslu annað en greiðslur úr almannatryggingakerfinu eða frá Atvinnuleysistryggingasjóði og þurfa þó að borga nokkra skatta af.

Ég skora því á hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, formenn stjórnarflokkanna, að gera nú betur. Þetta er einfalt mál, ákaflega einfalt mál, snýst bara um það réttlætismál að þessir hópar fái sambærilegar kjarabætur og aðrir núna fyrir jólin.