132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla bara ekki að trúa því að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki hugleitt það, þegar samkomulag Samtaka atvinnulífsins og ASÍ var undirritað fyrir örfáum dögum, eða gert ráð fyrir því að Öryrkjabandalagið kæmi á eftir og óskaði eftir þeirri eingreiðslu sem eðlilegt má telja að öryrkjar fái. Það kemur mér mjög á óvart að hæstv. forsætisráðherra skuli svara á þeim nótum sem hann svarar nú, vísar í einhverja skýrslu sem liggur fyrir sem unnin hefur í samvinnu við Samtök aldraðra um bótamál. Mér fyndist svo eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra kæmi hér, bæri höfuðið hátt og segði að að sjálfsögðu fengju öryrkjar sömu eingreiðslur og samið var um til aðila vinnumarkaðarins fyrir örfáum dögum.

Við höfum lagaskyldu til að gæta þess að bætur Tryggingastofnunar eða kjör öryrkja þróist á svipuðum nótum og gerist á almennum vinnumarkaði, þannig að ég spyr: Á hverju stendur? Af hverju svarar hæstv. forsætisráðherra á þeim nótum sem hann gerir?

Öryrkjabandalag Íslands minnti á sig í gær með ályktun og fagnaði að sjálfsögðu þeirri tekjutengingu atvinnuleysisbóta sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að verði framvegis viðhöfð en minnir jafnframt á að bætur almannatrygginga séu tengdar tekjum með öfugum formerkjum sem valdi því að öryrkjar lendi ævinlega í fátæktargildru. Er það markmið hæstv. ríkisstjórnar að halda öryrkjum fyrir utan þær bætur sem var verið að semja um fyrir örfáum dögum? Ég trúi því ekki að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki betri svör til Öryrkjabandalagsins og til okkar allra sem viljum standa vörð um þær bætur sem almannatryggingar láta í té og viðurkennum að eru allt of lágar. Við hljótum að láta þessa eingreiðslu koma til öryrkja og þeirra sem eru á bótum almannatrygginga á sömu nótum og samið hefur verið um til annarra fyrir örfáum dögum.