132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Eingreiðsla til bótaþega.

[10:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert að ríkisstjórnin fundi með Samtökum aldraðra og öryrkja og rækti gott samráð við þau samtök og á ekki að þurfa að þakka það sérstaklega. Það samráð hefur að vísu verið svolítið gloppótt og menn hafa verið fundaglaðir og undirskriftaglaðir rétt fyrir kosningar og þá gjarnan gripið til þess að nota Þjóðmenningarhúsið og kallað í fjölmiðla eins og gert var óspart á útmánuðum 2003. Síðan hafa efndir sumra þeirra gjörninga verið svona og svona. Það er ekki um það deilt af neinum nema ríkisstjórninni að það eru enn vanefnd að 1/3 hluta til fyrirheitin sem gefin voru með undirskrift samninga við öryrkja vorið 2003 og ég vísa í því sambandi til yfirlýsinga frá Öryrkjabandalaginu í gær.

En það mál sem hér um ræðir er tiltölulega einfalt. Það er hægt að nálgast það með tvennum hætti, annars vegar sýnist mér augljóst mál að vegna ákvæða laga um viðmiðun almannatryggingabóta við launaþróun eða ef ég man rétt það sem hagstæðara er, verðlagsþróun eða launaþróun, þá er náttúrlega sjálfgefið að líta svo á að taka breytingar á almenna vinnumarkaðnum eins og menn ætla að gera gagnvart opinberum starfsmönnum og hækka viðmiðun greiðslubótanna sem því nemur.

En þó svo væri ekki að svona beri að líta á einfaldlega vegna ákvæða laga, þá eru svo augljós sanngirnisrök fyrir því að þessir hópar — sem almennt er viðurkennt að eru lakast settir allra í samfélaginu, það eru þeir sem ekkert hafa sér til framfærslu annað en greiðslur úr almannatryggingakerfinu — verði ekki af þessari launauppbót eða leiðréttingu, sem kannski er nær að kalla það. Við skulum muna að þetta er til þess að mæta rýrnun kaupmáttar sem hefur orðið vegna (Forseti hringir.) aukinnar verðbólgu í landinu. Eiga þá öryrkjar og atvinnulausir einir að sitja uppi með kjaraskerðingu af völdum verðbólgunnar? Það getur ekki verið (Forseti hringir.) og ég tek undir óskir um að ríkisstjórnin afgreiði þetta mál.