132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:16]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf ekki fullvissu, það er nóg að áleitinn grunur leiki á því að Ísland sé misnotað. Af hverju, frú forseti? Vegna þess að það má enginn vafi leika á því að Ísland sé saurgað með því að flytja um það fólk sem er hugsanlega pyndað í einhverjum skuggaríkjum heimsins. Ég sætti mig ekki við þessi linkulegu viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra.

Dettur honum virkilega í hug að það sé hægt að spyrja bandarísk stjórnvöld um hvað CIA sé að gera? Dettur hæstv. ráðherra virkilega í hug að það sé hægt að spyrja hvort verið sé að nota leppfyrirtæki í þessum tilgangi? Hæstv. ráðherra þarf ekki annað en að lesa amerísk stórblöð þar sem frá þessu er greint og hann á að reka af sér slyðruorðið og hann á að lýsa því yfir að þær flugvélar sem grunur leikur á samkvæmt upplýsingum danskra stjórnvalda að séu misnotaðar í þessum tilgangi hér á Íslandi fái ekki að lenda hér. (Forseti hringir.) Hvers vegna gerir hann það ekki?