132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:23]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Það er nú efni í aðra og langa umræðu, frú forseti, ef farið yrði út í hvernig hlutirnir hafa gengið til í Írak og það fúafen sem menn eru þar fastir í. Það hefur því miður margt gengið eftir og ræst af því sem menn sem höfðu þekkingu á málefnum þess svæðis vöruðu við áður en ráðist var þar inn. Ég vitna t.d. til þess sem helsti sérfræðingur Íslendinga á þessu sviði, Magnús Bernharðsson, hefur sagt.

En það er nú þannig að í Morgunblaðinu í dag kemur fram að Bandaríkjaher viðurkenni notkun hvítra fosfórsprengna í Falluja. Og þótt svo að Bandaríkjamenn hafi kosið að grafa undan CVC-samningum að hluta til, efnavopnasamningnum, með því að vera ekki aðilar að honum að öllu leyti þá er það auðvitað geysilega alvarlegur atburður, burt séð frá öllu öðru, að þessi efnavopn skuli vera notuð í nútímahernaði. Auðvitað á Ísland sem aðili að samningnum að fordæma slíkt og mér finnst að hæstv. utanríkisráðherra geti tekið sterkar til orða en hann gerði hér gagnvart mögulegri misnotkun eða mögulegri notkun þessara efna.