132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það olli mér nokkrum vonbrigðum að hæstv. utanríkisráðherra skyldi ekki í ræðu sinni tala meira um hlutverk og stöðu Íslands í varnarsamstarfi við aðrar þjóðir, um stöðu okkar í Norður-Atlantshafi og tengsl við nágrannaþjóðir.

Ég kem hér upp til að spyrjast fyrir um einstök atriði í þessari ræðu. Fyrir það fyrsta, þá talar hæstv. utanríkisráðherra um að íslensk stjórnvöld hafi lýst yfir vilja til að kanna möguleika á samstarfi á sviði þyrlubjörgunar. Mig fýsir að vita hvort hér sé að einhverju leyti verið að ræða um að Landhelgisgæslan fái aukið og stærra hlutverk hér á landi, þá hugsanlega í samstarfi við NATO eða við Bandaríkjamenn, bæði á sviði þyrlubjörgunar en hugsanlega líka á sviði einhvers konar eftirlits á hafinu.

Hitt sem mig langar til að koma aðeins að er að hæstv. utanríkisráðherra minntist á að nú standi yfir undirbúningur að málsókn Íslands gegn Noregi fyrir alþjóðadómstólnum í Haag vegna Svalbarðamálsins. Nú er það svo að þeir utanríkisráðherrar sem hafa rætt þetta áður, ég held a.m.k. síðustu tvö ár, hafa sagt mjög svipaða hluti og ég verð að lýsa því yfir að ég er farinn að hafa áhyggjur af þessu máli, af þessum mikla seinagangi við undirbúninginn sem hefur tekið ansi mörg missiri. Mig langar því til að varpa því fram hvort ekki sé kominn tími til að þessu starfi fari að ljúka því ég hygg að andstæðingar okkar, þ.e. Norðmenn muni hætta að taka okkur trúanlega í þessum efnum og halda að hér sé eingöngu um að ræða innantómar hótanir, að Ísland sé í raun og veru ekkert annað en pappírstígrisdýr í þessu máli og að við meinum ekkert með þessum hótunum.