132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:26]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal með ánægju útskýra nánar þau tvö atriði sem þingmaðurinn nefndi.

Varðandi hugsanlega meiri aðild Íslendinga í störfum þyrlubjörgunarsveitar á Keflavíkurflugvelli þá er það hugmynd sem hefur verið í gangi og við viljum gjarnan ræða frekar við Bandaríkjamenn hvort hægt sé að útfæra nánar með viðeigandi hætti fyrir báða aðila. Það mál er ekki lengra komið en þar er um að ræða svið þar sem Íslendingar hafa bæði þekkingu og reynslu til að taka að sér aukin verkefni, þó að þau séu vissulega kostnaðarsöm. Það er ekkert vafamál að þar mundi Landhelgisgæslan hafa hlutverki að gegna þó að ekki sé búið að útfæra það enn þá.

Varðandi Svalbarðamálið þá hefur það legið fyrir í nokkur missiri að íslenska ríkið hefur verið að undirbúa málssókn til að fylgja eftir réttindum sínum á því svæði, málsókn fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Þetta er mál sem krefst mjög vandaðs undirbúnings og lögfræðilegrar vinnu sem hefur verið í gangi þennan tíma. Við höldum því áfram að undirbúa þessa málssókn, það er ekki að heyra á Norðmönnum að þeir vilji gefa neitt eftir í þessum efnum við samningaborð þannig að við munum halda þessu máli til streitu eins og áður hefur verið tilkynnt. En það er nú gjarnan þannig með málaferli fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag að þau taka mjög langan tíma bæði í undirbúningi og flutningi og síðan þar til dómur fellur. Þannig er nú staðan í því máli, virðulegi þingmaður.