132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:47]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist á því sem hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson sagði áðan, að hann hafi komið með þetta að heiman sem hann sagði í ræðustólnum. Ég tel að í ræðu minni hafi ég bæði verið með talsvert öfluga sýn til framtíðar um mannöryggið og áherslurnar á það á bæði innlendum og erlendum vettvangi, á alþjóðastofnanir og hvernig þurfi að takast á við þær. Ég talaði um Sameinuðu þjóðirnar og markmiðið í þeim efnum, um skilgreiningu á vá og vörnum á Íslandi og þannig gæti ég áfram talið. Mér heyrist að ræðumaðurinn hafi komið með þetta skrifað að heiman, kannski fengið einhverja forskrift um hvert hlutverk hans ætti að vera í þingsal í dag.

Ræðumaður sagði að það hefði blygðunarlaust komið fram að ég vildi ekki varnarlið á Íslandi og ég vildi að varnarliðið færi. Ég sagði áðan að ég vildi öryggi og varnir og teldi mikilvægt að við hefðum tvíhliða samning við Bandaríkjamenn og við værum aðilar að NATO. Síðan vildi ég að varnarhagsmunir okkar væru skilgreindir, hver váin væri og síðan hefðum við varnarviðbúnað í samræmi við það. Þetta sagði ég í ræðu minni áðan, sem bendir jafnframt til þess að hv. ræðumaður hafi greinilega komið með eitthvað skrifað að heiman.

Varðandi Alþjóðaviðskiptastofnunina tel ég að þar þurfi margt að breytast, að hún þurfi m.a. að taka meira mið af félagslegum og menningarlegum hagsmunum þeirra þróunarríkja sem aðild eiga að henni. Ég tel að félagslegan þátt þurfi inn í þá samninga til að tryggja að þessi ríki geti að einhverju leyti varið sína markaði á meðan þau byggja upp alþjóðaviðskipti sín.