132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:10]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru þrjár stórar spurningar sem ég fæ tækifæri til að svara á tveimur mínútum.

Varðandi Evrópusambandið þá er ekki hægt að tala um einhvern minni hluta og meiri hluta varðandi þá gerjun sem á sér stað í Framsóknarflokknum. Það er engin mæling á því. Menn ræða auðvitað málin. Það sem ég sagði í ræðu minni er að maður finnur fyrir ákveðinni kynslóðabreytingu. Unga fólkið ræðir mun jákvæðar um Evrópusambandið en þeir sem eldri eru í flokknum. Ég fullyrði það.

Ég studdi EES-samninginn á sínum tíma og ég hef verið talsmaður þess að við eigum skoða nánari tengsl við Evrópusambandið. Ég er einmitt í þessari Evrópunefnd sem er núna að skoða samningsmarkmið okkar. Flokkurinn hefur ályktað um að við eigum að halda áfram upplýsingaöfluninni og að móta samningsmarkmiðin fyrir hugsanlega aðild. Það er ekkert búið að ákveða að sækja um, alls ekki. En við erum að undirbúa okkur fyrir þessa umræðu og þessi skref ef við þurfum að taka þau. Unga fólkið í flokknum hefur mikinn áhuga á þessu eins og reyndar ályktanir hafa sýnt á þeirra vettvangi.

Varðandi samningaviðræðurnar við varnarliðið þá hefur Framsóknarflokkurinn verið sammála Sjálfstæðisflokknum um hvernig á þeim málum er haldið. Við höfum stutt þá stefnu sem er uppi í varnarviðræðunum. En eins og fram hefur komið margoft er þetta mjög óljóst eins og sakir standa núna og hv. þingmaður veit manna best.

Varðandi fangaflutningana er það alveg ljóst að ég styð alls ekki fangaflutninga. Það er alveg fráleitt. Ég tel að ef um fangaflutninga er að ræða þá eigum við að mótmæla þeim hástöfum. En málið er að við vitum bara ekki hvort um nokkra fangaflutninga hafi verið að ræða. Það eru allt getgátur þannig að ekki er hægt að koma með neinar yfirlýsingar.