132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera kominn í hörkusamningaviðræður um ESB.

Þróunin innan ESB hefur verið sú að menn eru frekar að ráða málum sínum í nærumhverfinu heldur en áður. Ég spyr: Af hverju er þá olían ekki tekin af Bretum og skógarnir í Finnlandi? Það eru mikilvægar auðlindir fyrir þær þjóðir.

Ég vil líka minna hv. þingmann á ágætisræðu sem hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, flutti á sínum tíma í Berlín um að mikilvægt væri að skoða þann möguleika, ef til aðildarviðræðna kæmi, að taka Norður-Atlantshafið út fyrir sviga, þ.e. þar mundi ekki gilda hin sameiginlega sjávarútvegsstefna ESB sem ég er sammála um að er okkur ekki hagstæð.

Menn skulu því ekki semja fyrir fram við sjálfa sig um að þetta sé algjörlega útilokað nema að menn almennt vilji ekki skoða neitt Evrópusamband í framtíðinni. Þá þarf auðvitað ekkert að ræða það neitt meira.

En Framsóknarflokkurinn telur ástæðu til að ræða þessi mál og á okkar vettvangi er komin í gang vinna til að skilgreina samningsmarkmið, þannig að við séum tilbúin með þau ef til aðildarviðræðna kemur. En það er ekki búið að ákveða að hefja aðildarviðræður þótt skiptar skoðanir séu innan flokksins. Auðvitað er það svo að skiptar skoðanir eru innan flestra flokka, fullyrði ég, enda er þetta stórmál. Skoðun mín er sú að við eigum að halda þessari vinnu áfram. Ég get alveg sagt það hér að ég hef verið í þeim hópi sem er hvað jákvæðastur innan Framsóknarflokksins gagnvart því að skoða meiri tengsl við Evrópusambandið. Ég vil ekki segja á þessari stundu að við eigum að sækja um aðild. Það vil ég ekki gera. En ég vil skoða samningsmarkmiðin til að sjá hvernig þau líta út áður en til samningaviðræðna kemur, ef til þeirra kemur. Ég get fullyrt að ég er í þeim hópi sem er tiltölulega jákvæður (Forseti hringir.) gagnvart frekari tengslum við Evrópusambandið.