132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans. Það er gagnlegt samkvæmt venju að eiga þess kost að skiptast á skoðunum um utanríkismál. Ég mundi kannski gefa ræðu ráðherra þá einkunn að hún hafi verið svona frekar bragðdauf, svolítið þurr, alla vega ef ræðan væri rauðvín mætti væntanlega nota þá samlíkingu. (Gripið fram í.) Nei, ég ætla ekki að nota nein svoleiðis orð, en frekar þurr, bragðdauf og svolítið embættisleg ræða fannst mér hún vera hjá hæstv. utanríkisráðherra.

En áður en ég vík frekar að því hafði ég hugsað mér að gera aðeins að umtalsefni ummæli sem hér hafa fallið og þau sjónarmið sem aðrir ræðumenn hafa komið með, þar á meðal hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem er að vísu ekki í salnum, ég verð þá kannski að geyma mér það til betri tíma. En ég vil þó segja að ég get verið sammála hv. þingmanni um margt það sem snýr að framtíðarhugmyndum eða framtíðarhugleiðingum þingmannsins um fyrirkomulag heimsmála og öryggismála í heiminum, en annað ekki. Ég mundi leggja höfuðáherslu fyrir mitt leyti á mikilvægi þess að efla það sem kallaðir eru borgaralegar og fyrirbyggjandi aðgerðir í öryggisgæslu í heiminum. Þar sem upp á sænsku er kallað „civil och förebyggende“ aðgerðir og unnið hefur verið talsvert með m.a. á vettvangi Norðurlandaráðs. Það á að fyrirbyggja stríð en ekki að fara í fyrirbyggjandi stríð. Versta hugmyndafræði sem komið hefur fram í þessum efnum á seinni öldum liggur mér við að segja er Bush-hugmyndafræðin um fyrirbyggjandi styrjaldaraðgerðir. Það eitt og sér er slík hrópandi mótsögn, að fara í stríð með það að leiðarljósi að það komi kannski í veg fyrir stríð seinna. Það talar fyrir sig sjálft.

Þessi hugmyndafræði — af því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nefndi NATO og NATO-aðild Íslendinga — er nátengd þeirri þróun sem m. a. hefur orðið innan NATO. Þess vegna er ég ósammála þeirri gagnrýnislausu umfjöllun sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði hér í frammi varðandi NATO.

NATO þróaðist upp úr 1990 í þá átt, aðallega að forgöngu Bandaríkjamanna, að endurskilgreina stöðu sína í staðinn fyrir að leggja sig niður sem hefði verið gáfulegast og tók sér það fyrir hendur að gera sig í rauninni að, ekki svæðisbundnu varnarbandalagi, heldur klúbbi mestu hervelda heimsins undir forustu Bandaríkjanna sem gætu látið til sín taka hvar í heiminum sem væri. Utansvæðastefna NATO er náskyld Bush-hugmyndafræðinni, skylt skeggið hökunni, enda sömu aðilar á ferð, þ.e. haukarnir í bandaríska stjórnkerfinu sem auðvitað voru ráðandi í þeirri endurskipulagningu NATO sem fór fram kjölfar breytinganna upp úr 1990 og átti sér stað á fundinum í Róm, á fundinum í Washington og á fundinum í Prag var smiðshöggið rekið á.

Nú kann að vera að það hafi einhver áhrif á málflutning formanns Samfylkingarinnar að hv. þm. Össur Skarphéðinsson mun vera formaður sendinefndar Íslands hjá NATO og þar af leiðandi kannski ekki „inn“ á þeim bæ að gagnrýna NATO mikið. En hvað sem því líður skrifa ég að minnsta kosti ekki upp á að ekki sé ástæða til að taka til í þessum efnum ef ástand öryggismála í heiminum er skoðað.

Athyglisverð orðaskipti voru á milli framsóknarmanna og samfylkingarmanna bæði í ræðum og andsvörum. Eitthvað var verið að stíga í vænginn í þessum Evrópumálum. Það er ekki galin samlíking hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að snúa megi gagnrýni framsóknarmanna á óljósa stefnu Samfylkingarinnar í varnarmálum upp á þá sjálfa þegar kemur að Evrópumálunum.

Mér fannst ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur nokkuð kúnstug. Hv. þingmaður bollalagði svona um það innan úr iðrum Framsóknarflokksins að þess væri kannski að vænta þegar kynslóðaskipti yrðu þar á bæ að menn yrðu jákvæðari gagnvart einhverju sem hún kallaði „meiri tengslum“ við Evrópusambandið, einhverjum sterkari böndum þarna á milli eða hvað? því að ekki mátti þó nefna aðild berum orðum.

Mér finnst þetta skrýtin nálgun og það væri fróðlegt að heyra frekari rök fyrir því að ungt fólk þurfi endilega að komast frekar að þeirri niðurstöðu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið en eldra fólk. Hvers vegna ætti það að vera? Er eitthvað sem bendir til þess að ungt fólk geti ekki verið nákvæmlega jafngagnrýnið á þá þætti innan Evrópusamrunans sem valda hörðustu andstöðunni við þróunina þar meðal ungs fólks, ekki síst í Evrópu og innan Evrópusambandsríkjanna?

Hefur hv. þingmaður kannski aðeins litið á þessi mál í Noregi? Veit hún hverjir bera uppi starf nei-hreyfingarinnar gegn aðild að Evrópusambandinu í Noregi? Það er kornungt fólk. Af hverju skyldi það nú vera? Það kann að vera að það nálgist þetta af eitthvað öðrum ástæðum en þeir sem eldri eru og hafa jafnvel lagt meiri áherslu á fullveldisrökin og þá hluti. Það er a.m.k. þannig hjá ungum vinstri grænum að þar eru menn mjög gagnrýnir á margt sem er á ferðinni innan Evrópusambandsins og í Evrópusamrunanum, e.t.v. að einhverju leyti á öðrum forsendum en sumir þeir sem eldri eru en það er jafngilt fyrir því. Þar gagnrýna menn það hversu Evrópusamruninn er algjörlega á forsendum fjármagnsins og stórfyrirtækjanna. Menn gagnrýna hina kapítalísku þróun í Evrópusambandinu og hvernig hún er drifin áfram. Menn gagnrýna skort á lýðræði, lýðræðishalla, menn gagnrýna skrifræði og miðstýringu ekkert síður en kannski þá fullveldisskerðingu sem samfara væri aðild.

Ég get alveg eins séð það fyrir mér að andstaða við það og gagnrýni á að Ísland gangi í Evrópusambandið á komandi áratugum verði ekki síður borin uppi af ungu hugsjónafólki en mörgum þeim sem eldri eru. Kannski er þessu öðruvísi farið innan Framsóknarflokksins og þá sérstaklega hjá ungu framsóknarfólki. Mér er ekki kunnugt um hvað það er margt, ég hef haft þá tilfinningu stundum að það sé furðu fljótt að verða gamalt en það er önnur saga.

Hæstv. utanríkisráðherra segir í ræðu sinni að segja megi að ástand heimsmála fari að mörgu leyti batnandi eða sé betra en oft áður. Já, auðvitað er ýmislegt betra en áður en annað er verra. Og það er fullgagnrýnislaus og svolítið sjálfbirgingsleg nálgun í anda Vesturlanda að horfa fyrst og fremst á björtu hliðarnar og horfast ekki í augu við þá neyð og þá vá sem steðjar að víða í heiminum. Átta hundruð milljónir manna eru vannærð, svelta. Tugir þúsunda deyja úr næringarskorti á hverjum degi, ein og hálf til tvær milljónir manna búa nánast við örbirgð, upp undir helmingur mannkyns lifir undir fátæktarmörkum. Eyðnibylgjan í Afríku, loftslagsbreytingarnar, skortur á drykkjarvatni. Ein milljón manna eyðir tveimur til fjórum klukkustundum á dag í það eitt að afla sér og fjölskyldu sinni drykkjarvatns. Konur í Afríku ganga með ker klukkustundum saman til brunna þar sem vatni er handdælt upp og vatnsborðið í brunnum heimsins lækkar um einn til tvo metra að meðaltali á ári hverju. Menn eru að draga upp vatnsforða sem safnast hefur saman í jörðinni árþúsundum saman og ástandið þar fer hríðversnandi. Það eru líka dökkar hliðar á því.

Endurskipulagning Sameinuðu þjóðanna hefur ekki gengið sem skyldi. Þar tek ég undir með hæstv. utanríkisráðherra og tel þó að langalvarlegast sé að ekkert hefur í raun og veru miðað við að endurskipuleggja öryggisráðið sjálft, sjálft valda- og framkvæmdatæki Sameinuðu þjóðanna. Það er góðra gjalda vert að koma á fót mannréttindaráði ef það tekst og gott að fá friðaruppbyggingarmenn. Mestu máli skipti þó ef Sameinuðu þjóðirnar næðu betur með endurskipulögðu og öflugu öryggisráði að sinna skyldum sínum og verkefnum í heiminum og þyrftu ekki að lúta jafnoft í gras fyrir ofríki stórvelda og þá fyrst og fremst Bandaríkjanna.

Um fúafen Íraksstríðsins er hæstv. utanríkisráðherra fáorður eins og ég hef áður nefnt og sama má að mörgu leyti segja um Afganistan. Bandaríkjamenn eru að fara frá Afganistan, Norðmenn eru að fara frá Afganistan og nú er leitað logandi ljósi að einhverjum sem vilja taka við, taka við því ófremdarástandi sem skilið er eftir í því landi og er ekki par fallegt. Ég er ánægður með að draga eigi íslenska friðargæsluliðið svokallaða, litla herinn, frá öðru svæðinu í Afganistan. Kannski er það vegna þess að hluti íslensku friðargæslunnar svokölluðu hefur unnið á svæðum sem Norðmenn hafa farið með stjórn á og verið inni í sveitum Norðmanna. En ástandið er þannig í öryggismálum þar að borgaralegir íslenskir starfsmenn eiga auðvitað ekkert erindi þangað, augljóslega ekki. Og ekki bætir úr skák að menn hafa anað út í þá vitleysu að senda þá inn í NATO-sveitir, láta þá bera hernaðartitla og láta þá taka þátt í hernaðarlegum verkefnum. Því það liggur fyrir, hæstv. utanríkisráðherra, að hér er búið að grauta saman borgaralegum og hernaðarlegum verkefnum þannig að það er alger óhæfa að mínu mati. Hinn langi og vandræðalegi varnarkafli í ræðunni um að þeir séu víst borgaralegir starfsmenn en ekki hermenn verður svolítið aumingjalegur þegar það er skoðað að inni í þessum sveitum sem Íslendingarnir starfa eru verkefni sem tengjast upplýsingaöflun í þágu hersveitanna í Afganistan. Það er sannanlegt, það liggur á borðinu. Ég vísa t.d. í úttekt blaðamanns Morgunblaðsins á því máli.

Ég hef lagt fram fyrirspurn um þetta mál á þinginu sem kom fram strax 6. október sl. Ég hefði kosið að hæstv. utanríkisráðherra hefði verið búinn að svara henni en það verður þá vonandi gert fljótlega og við getum rætt þetta mál betur þá. En hvað varðar þessa litlu heri sem hérna eru þá er það auðvitað mál sem er alveg með endemum hvernig hefur þróast. Það er ekki bara ein lítil sveit af þessu tagi, ein sérsveit í landinu, þær eru orðnar tvær. Hæstv. utanríkisráðherra er yfirmaður fyrir lítilli herdeild á eigin vegum, þ.e. sérsveit sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á að sérsveitin er ekki bara ein, þær eru tvær. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli er kominn með sína eigin sérsveit og yfirmaður hennar er hæstv. utanríkisráðherra. Ætli það sé ekki hún sem aðallega mannar sendinefndirnar til Afganistan?

Um fangaflugið sem hér var rætt í gær mætti margt segja og auðvitað er það með endemum hvernig það mál allt saman hefur gengið fyrir sig. Um alla Evrópu fer nú fram mikil umræða um þetta mál. Hafin er opinber rannsókn á þessu máli í fleiri en einu Evrópulandi, reyndar á vegum Evrópusambandsins sjálfs, en það er t.d. hafin lögreglurannsókn á Spáni. Hvar eru íslensk lögregluyfirvöld? Hvar er núna lögreglustjórinn og ríkislögreglustjórinn með allt sitt batterí? Ég skora á íslensk lögregluyfirvöld að hefja rannsókn á þessu máli, opinbera sakarannsókn, því að við blasir að þarna hafa verið framin margföld lögbrot, brot á mannréttindum, brot á íslenskum lögum og brot á alþjóðasamningum sem Ísland hefur löggilt. Auðvitað á lögreglan á Íslandi að gera það sama og lögreglan á Spáni, að hefja sjálfstætt og á eigin vegum rannsókn á þessu máli því það er ólíklegt að til mikils sé að vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Að lokum varðandi viðræður um veru hersins hér á landi þá finnst mér svolítið skrýtið ef menn snúa því máli aðallega, eins og hér hafa verið gerðar ákveðnar tilraunir til af ónefndum aðilum, upp í pex um málsmeðferð og aðferðafræði, hvort menn hafi farið vitlaust eða rétt að í þessum viðræðum. Eigum við ekki fyrst að ræða efnisatriðið sjálft? Er eitthvað með þennan her að gera hér? Er það ekki fagnaðarefni að hann fari? Eigum við ekki að gleðjast yfir því, Íslendingar, ef við getum loks orðið sammála um það eftir rúmlega hálfrar aldar deilur að það sé ekkert með erlendan her að gera á íslenskri grund og hafi auðvitað aldrei verið? Hvar eru núna formenn þeirra stjórnmálaafla hverra forustumenn fyrir hálfri öld sóru og sárt við lögðu, m.a. hér úr þessum ræðustóli, að aldrei skyldi vera erlendur her á íslenskri grund á friðartímum? Hafa þeir engar tilfinningar til þess sem þá var lofað, sem þá var lýst yfir, sem þá voru gefnir hátíðlegir svardagar um af formönnum þeirra stjórnmálaafla sem báru ábyrgðina á því að taka herinn inn í landið, að það skyldi þó aðeins vera meðan viðsjárverðir ófriðartímar væru uppi en hér ætti ekki að vera erlendur her á friðartímum? Gera menn ekkert með það, með fyrirvarana sem lýst var yfir þegar Ísland gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum og þegar Íslendingar fóru í NATO og með þá svardaga um þessi atriði sem síðan var viðhaldið áratugum saman en hefur svo smáhljóðnað yfir að vísu?

Hvenær varð sú stefnubreyting í Sjálfstæðisflokknum og í Framsóknarflokknum að það skyldi vera erlendur her á Íslandi um aldur og ævi? Geta þeir svarað því hæstv. ráðherra Geir H. Haarde og hv. þm. Halldór Blöndal? Er það formleg stefna Sjálfstæðisflokksins að það skuli algerlega óháð aðstæðum og þó að það séu sannanlega friðartímar ríkjandi vera hér erlendur her? Er það orðið að markmiði og keppikefli þessara stjórnmálaafla að hafa landið hersetið? Er það þannig? Hvað með Framsókn og hvað með Samfylkinguna? Er það kannski líka þannig að Samfylkingin sé á þeirri skoðun að hér eigi að vera erlendur her, kannski aðeins minni þegar búið er að meta varnarþörfina, sem mér skilst að sé aðalvandamálið? Nei, ég gef ekki mikið fyrir slíkt hjal. Nálgumst þetta mál á grundvallarforsendum. Viljum við það, ef við eigum annarra kosta völ, að land okkar sé hersetið? Flestar þjóðir heimsins aðrar vilja það ekki. Norðmenn hafa varist því þrátt fyrir mikinn þrýsting eins og nýleg gögn sýna að þangað kæmi erlendur her. Ég hefði haldið (Forseti hringir.) að ekki ætti það þá síður að eiga við um friðelskandi Íslendinga. (Forseti hringir.) Ég vildi gjarnan fá svör við þessu.