132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:03]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Um leið og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína og umræðuna um hana í þessum sal á hinu háa Alþingi get ég ekki látið hjá líða að deila með ykkur þeim hugsunum mínum að kannski sé kominn tími til, frú forseti, að þeir hv. þingmenn sem fæddir eru fyrir árið 1960 taki sér hálfan dag saman, haldi svolítið semínar og fari yfir fortíðina í eitt skipti fyrir öll. Við höfum hreinlega ekki, frú forseti, tíma til að standa í því hér á hinu háa Alþingi í hvert einasta skipti og í þau fáu skipti sem hér fer fram umræða um alþjóðamál og utanríkisstefnu Íslands, að hún snúist svo að segja einvörðungu um fortíðina. Verkefnin eru bæði áhugaverðari og brýnni en svo að þessi dans skuli vera stiginn í hvert einasta skipti sem rætt er um utanríkismál. Ég held reyndar að ég viti, frú forseti, hvers vegna það er. Það er vegna þess að þeir sem helst standa fyrir þessari umræðu hafa ekkert nýtt fram að færa. Mér er nær að halda að þeir hafi ekki lesið nýja bók um stöðu alþjóðamála í 50 ár eða svo. Tímarnir hafa breyst, viðfangsefnin hafa breyst og viðbrögð okkar við þeim staðreyndum hljóta líka að breytast. Um það hljótum við öll að vera sammála.

En það sem mér þótti einna áhugaverðast í umræðunni fyrr í dag er að heyra, eða kannski má orða það þannig að það rann upp fyrir mér að í umræðum um stöðu varnarsamstarfsins við Bandaríkin og stöðu varnarsamningsins og útfærslu á honum virðist mér að við séum búin að finna tvo aðila sem séu sammála um málið. Það er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Donald Rumsfeld, þeir séu sammála um hvað þurfi að gera á Íslandi. Aðrir eru það ekki.

Við vitum, frú forseti, að það hefur lengi verið ætlan Bandaríkjastjórnar að minnka hér viðbúnað. Það þarf ekki að fara yfir bréfaskiptin og það sem gerðist fyrir tveimur árum, það þekkja allir sem hér sitja, við vitum það. Einn flokkur á Alþingi fagnar því, það er stjórnmálahreyfingin Vinstri hreyfingin – grænt framboð, og við vitum líka að í Washington eru það haukarnir sem ráða ferðinni í Pentagon, í varnarmálaráðuneytinu sem telja enga þörf á að hafa hér fjórar herþotur. Þetta liggur þó fyrir eftir umræðu morgunsins.

Mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef, frú forseti, að tæpa á nokkrum atriðum. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í ræðu á öðrum vettvangi, með leyfi forseta:

„Baráttan gegn hryðjuverkum má ekki vera háð á kostnað mannréttinda eða mannréttindalaga.“

Ég nefni þetta vegna þeirrar umræðu sem hefur farið fram, m.a. um meinta fangaflutninga og vegna þeirrar umræðu sem við höfum átt í dag og í gær um það atriði af því að hér hafa menn komið upp og sagt: Við vitum ekki í raun hvað er í gangi. Gott og vel. Við skulum samt gera okkur grein fyrir að það er nóg að einhver minnsti vafi leiki á því að þarna sé ekki rétt á málum haldið, það ætti að vera nóg til þess að íslensk stjórnvöld tækju við sér vegna þess að við getum ekki leyft okkur að láta það gerast fyrir einhverja slysni eða athugunarleysi að hér sé verið að millilenda með fanga í því skyni að færa þá til annarra landa þar sem beita má áhrifaríkari aðferðum, eins og einhver mundi orða það, pyndingum, mundu aðrir segja, til þess að ná fram upplýsingum.

Því nefni ég þetta að í stórblaðinu New York Times birtist grein 14. nóvember síðastliðinn eftir tvo málsmetandi menn, annar er prófessor við Georgetown-háskóla, þar sem farið er vandlega yfir það með hvaða hætti bandarísk yfirvöld hafa neytt allra mögulegra bragða til þess að pynda fangana í Guantanamo-fangabúðunum og hvernig það liggur hreinlega fyrir og er skjalfest hjá bandarískum yfirvöldum hvernig það hefur verið gert og samþykkt af varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Þar hefur verið notuð aðferð sem notuð var í ríkjum kommúnismans í Ráðstjórnarríkjunum, í Sovétríkjunum sálugu, og í þeim ríkjum sem bjuggu við kommúnisma árum og áratugum saman. Aðferð sem snerist í raun ekki um að ná réttum upplýsingum út úr föngum, út úr grunuðum mönnum, heldur að ná þeim tökum á þeim að þeir brotnuðu niður á sál og líkama og létu að vilja þeirra sem hefðu þá í haldi. Þessi aðferð var notuð í gúlaginu í Moskvu og fyrir austan járntjald áratugum saman. Þessa sömu aðferð hafa bandarísk stjórnvöld nú tekið upp á sína arma í svokölluðu stríði gegn hryðjuverkum.

Ég nefni þetta, frú forseti, af því að ekki er allt sem sýnist í þessum efnum og að ganga verður úr skugga um með ráðum sem duga að ekkert misjafnt sé á ferli í þeim flutningum sem rætt hefur verið um og það sé alveg öruggt að íslenska ríkið stuðli ekki að eða beri ekki á nokkurn hátt ábyrgð á því að um íslenskt land sé hægt að flytja fólk til annarra landa svo hægt sé að pynda það við yfirheyrslur.

Það veldur mér einnig vonbrigðum, frú forseti, að í umræðum um hina íslensku friðargæslu, sem fær væna fjárveitingu á næsta ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem er til umfjöllunar í þinginu, um það bil 570 millj. kr. hygg ég, að þar sé í ljósi þeirra umræðna sem orðið hafa, m.a. á hinu háa Alþingi í vor, ekki gerð minnsta tilraun til þess að endurskoða verkefnavalið og ekki gefið til kynna með neinum hætti að í ráðuneyti utanríkismála eigi að skoða það nánar og betur hvernig verkefni friðargæslunnar eru valin. Við höfum m.a. í höndum skýrslu sem hefur verið rædd um íslensku friðargæsluna og jafnréttis- og kynjasjónarmið í henni frá 1994–2004, skýrslu sem við ræddum af sérstöku tilefni á hinu háa Alþingi í vor að undirlagi hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Þar er með góðum rökum bent á að margt fleira væri hægt að gera og verja peningum til við uppbyggingu, friðargæslu og við aðstoð á stríðshrjáðum svæðum en að senda af stað vel útbúna jeppabíla til utanvegaaksturs í Afganistan. Það voru í raun einu nýju tíðindin í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að nú hefði verið hætt við annað af tveimur slíkum verkefnum í Afganistan vegna öryggisástandsins þar.

En hæstv. ráðherra sagði líka í ræðu sinni um annað málefni að Íslendingar ættu að einbeita sér að verkefnum á þeim sviðum þar sem við höfum þekkingu og reynslu. Þessu er ég fyllilega sammála af því að með því erum við bæði að nýta þann mannauð og þá peninga sem við verjum til þessara verkefna sem best.

Því finnst mér blasa við, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra taki tveimur höndum beiðni sem komið hefur frá landsfélagi UNIFEM á Íslandi um að styrkja verkefni þess næstu þrjú árin í Kosovo og á Balkanskaganum til að stuðla að réttindum kvenna og aukinni meðvitund um jafnrétti kynjanna þar. Það verkefni er engu síðra til að stuðla að friði og uppbyggingu á landi þar sem verið hafa átök árum saman en þau verkefni sem friðargæslan hefur valið sér hingað til, engu síðra og í hugum sumra okkar miklu betra. Um þetta hefur ráðuneytinu borist erindi. Um þetta höfum við fengið vandlega kynningu í hv. utanríkismálanefnd. Þetta er verkefni sem kostar brotabrot af því sem verið er að leggja til friðargæslunnar og má í mínum huga alveg eins lækka þá upphæð aðeins í fjárlagafrumvarpi næsta árs og veita fjármuni til þess verkefnis þannig að það geti farið af stað og hægt sé að sinna því með sóma.

Það skiptir nefnilega máli, frú forseti, að við beitum okkur á alþjóðlegum vettvangi á þeim sviðum þar sem við höfum þekkingu og reynslu og eins innan friðargæsluverkefnanna þar sem ekki er krafist vopnaburðar. Það er ekki okkar deild, ef þannig má að orði komast. Það er ekki að ástæðulausu að við höfum haft hér erlendan her og varnarsamning við erlent ríki frá því árið 1951 að það hefur hreinlega ekki verið hlutverk Íslendinga eða verkefni okkar að sinna slíkum verkum. Það eru önnur verk sem falla okkur betur og eiga betur við og eru í raun þannig að við getum sinnt þeim miklu betur en hinum. Það eru verkefni á sviði jafnréttismála, á sviði heilsugæslu, öll þessi brýnu verkefni til uppbyggingar eftir stríð sem eru engu minna merkileg en önnur verkefni sem krefjast vopnaburðar eða einhvers slíks, engu minna merkileg og í huga þeirrar sem hér stendur mun merkilegri í raun.

Mig langar einnig, frú forseti, vegna þeirrar umræðu sem varð um mannhelgina, um nýtt hugtak, um skylduna til að vernda, sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerði að umræðuefni, að binda það saman við annað sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni, um borgaralegar fyrirbyggjandi aðgerðir. Þetta tvennt á algjörlega saman. Þessi nýja hugsun um öryggi, um öryggi mannsins þegar ríkið bregst, þegar yfirvöld bregðast og þegar alþjóðasamfélagið á að taka í taumana, á jafnt við í umræðunni um skylduna til að vernda líf. Hin hliðin á því eru borgaraleg verkefni, fyrirbyggjandi aðgerðir, aðgerðir sem koma í veg fyrir að við þurfum að lenda í hernaðaríhlutun eða öðru slíku.

Það væri hægt að hafa langt mál um það en ekki gefst tími til þess. Ég vona samt að það sem hér hefur verið lagt inn í umræðuna, og alveg sérstaklega hugtakið um „human security“ kallast það á ensku, um mannhelgi eða mannvernd, að það hugtak fái aukið vægi í umræðum um alþjóðamál og um íslenska utanríkisstefnu og að það verði í raun fókusinn, að það verði brennidepill þess sem við höfum fram að færa á alþjóðlegum vettvangi á komandi árum.