132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:38]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir fyrstu skýrslu sína til hv. Alþingis um utanríkismál. Ég verð hins vegar að segja að við fyrsta lestur hennar fannst mér hún ansi mjúk og skautað fram hjá flestu sem mikill ágreiningur hefur verið um hér á landi og víðar, eins og t.d. árásina á Írak. Ég verð að spyrja, hæstv. forseti: Hvers vegna erum við enn þá stuðningsmenn hernaðarátaka og innrásar í Írak? Hafa engar efasemdir vaknað enn þá hjá nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins, sem nú er nýr utanríkisráðherra, um að innrásin í Írak hafi verið á röngum og upplognum forsendum?

Við í Frjálslynda flokknum erum ekki á nokkurn hátt sátt við að land okkar skuli hafa verið dregið inn í hóp hinna staðföstu þjóða með Bandaríkjamenn og Breta í fararbroddi þegar innrásin á Írak var ákveðin af tveimur ráðherrum í ríkisstjórninni.

Hvað hefur gerst síðan þá? Nokkuð er tæpt á því í skýrslunni núna, m.a. er að finna orð um nýja ríkisstjórn í Írak. Enn eru Bandaríkjamenn í Írak eða öllu heldur fjölþjóðaherinn margumræddi. Látið er líta út eins og allt sé í sómanum í lýðræðisþróun. Já, kannski er þetta lýðræðisþróun en miklar mannfórnir eru enn þá í Írak, því miður. En miðað við orðalag í skýrslunni í samanburði við fréttir fjölmiðla á ég erfitt með að átta mig á hvað hefur sérstaklega áunnist hingað til með endurreisnarstarfið í Írak. Hingað til hefur morðum og manndrápum ekki fækkað svo séð verði, hæstv. forseti. Stjórnarskrá var samþykkt þar nýlega og þingkosningar eru fram undan. Óbreyttir borgarar í Írak verða nánast á degi hverjum fyrir morðárásum og sífellt upplýsist um vopnaburð, víg og hegðun Bandaríkjamanna utan við lög og rétt alþjóðasamþykkta. Er hin staðfasta trú enn þá til staðar í huga hæstv. utanríkisráðherra? Minni ég í leiðinni á nýlega afstöðu Colins Powells.

Varnir Íslands, þ.e. varnarsamningur okkar og Bandaríkjanna er í uppnámi. Staða okkar innan Atlantshafsbandalagsins er þó áfram sú að við viljum tengsl við varnir annarra þjóða sem liggja að Atlantshafi norðanverðu, bæði austan hafs og vestan. Það samstarf kallar ekki sjálfkrafa á veru erlends hers í landinu á friðartímum eins og reyndar var afstaða stjórnvalda lengi vel en er e.t.v. nú orðin breytt í stjórnarflokkunum. Heimurinn tekur sífellt breytingum, bæði vegna breytinga á valdajafnvægi í veröldinni og einnig vegna aukins samstarfs t.d. ríkja í ESB og á öðrum svæðum veraldarinnar.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson reifaði þessi mál nánar í ræðu sinni fyrir hádegi og læt ég það að mestu nægja en tek undir efni orða hans að í þeim breytingum sem sýnilegar eru að verða á varnarsamningi okkar og Bandaríkjanna felast einnig tækifæri fyrir okkur að skipa málum á nýjan leik með okkar eigin áhuga og störfum að viðhaldi, viðbúnaði og vörnum eins og okkur sýnist að þeim best verða fyrir komið til framtíðar.

Það eru fleiri breytingar á Norður-Altantshafi en samstarf og samvinna ríkja að vörnum landanna. Miklar líkur eru nú á að með hlýrri sjó og hærri lofthita verði verulegar breytingar í Norðurhöfum og að innan fárra ára verði hafís ekki lengur til að teppa siglingar um norðlægar hafleiðir. Við þurfum sérstaklega að huga að þessum breytingum á norðurskautssvæðunum. Flutningar munu aukast, olíuvinnslan í Norðurhöfum mun einnig aukast. Hverjar eru fyrirætlanir Norðmanna, Rússa eða Grænlendinga um nýtingu á hafsvæðum sínum og landgrunni sínu? Hvernig verður nýtingu norðurslóðanna háttað? Það er stór spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur. Og hver verða viðbrögð okkar?

Við Íslendingar eigum sameiginlega lögsögu að lögsögu Grænlands, Færeyja og einnig Jan Mayen þar sem Norðmenn hafa yfirráð. Þessar þjóðir, Færeyingar, Íslendingar og Grænlendingar, byggja afkomu sína mikið á nýtingu hafsins, m.a. nýtingu fiskveiða.

Hæstv. forseti. Það skiptir okkur verulegu máli hvernig breytingar verða í Norðurhöfunum og hvaða nýtingu þjóðir hyggjast taka upp á botnsvæðum Norðurhafa ef hafísinn hopar. Það getur þýtt mengun og hættu fyrir okkur. Það getur líka þýtt ákveðna möguleika. Í öllum athöfnum mannsins felast möguleikar og líkur eru til þess að auknir flutningar úr Norðurhöfum — ég tala nú ekki um ef siglingarleiðin norðaustur opnast — muni fara um okkar hafsvæði, annað hvort sunnan eða norðan við landið. Að þessum málum þurfum við verulega að hyggja, hæstv. forseti, og það þarf að gera í tíma. Of seint er að bregðast við þegar miklar siglingar eru hafnar á þessum leiðum eða mikil nýting á hafsbotnssvæðunum er þegar komin á verulegan skrið. Auðvitað mun fylgja því ákveðin mengunarhætta þegar farið verður að nýta norðurslóðir t.d. til olíuvinnslu og gasvinnslu. Við getum ekki sagt fyrir um hvert mengun muni berast ef slys verða á vinnslustöðum eða flutningaleiðum. Það er alveg ljóst að við erum í leið skipa og við erum einnig í straumaleiðum norðan úr höfum með hinum kalda Grænlandsstraum og Austur-Íslandsstraum hér norðan við landið. Veðurfar hefur mikil áhrif á það hvernig straumar eru hér við land, en til alls þessa þurfum við að huga alveg sérstaklega í framtíðinni. Ég vil þess vegna beina þeirri spurningu til hæstv. utanríkisráðherra hvernig menn hyggjast standa að því að kortleggja annars vegar þá áhættu sem í þessu felst og hins vegar möguleikana sem í þessu felast, því að í þessum athöfnum mannanna eru líka faldir möguleikar.

Það má t.d. spyrja hver viðbrögð okkar eiga að vera ef stór olíuskip, mörg hundruð þúsund tonna olíuskip, sigla fram hjá landinu úr lögsögu Rússa eða Norðmanna í Barentshafi. Ætlum við að sýna einhver viðbrögð eða ætlum við ekkert að bregðast við? Ætlum við að undirbúa okkur undir það að takast á við það ef slíkt ofurolíuskip verður vélarvana t.d. norður af landinu? Hvernig ætlum við að gera það? Hvaða tæki höfum við til þess hér á landi? Væntanlega mun nýtt varðskip verða það öflugt að það hafi eitthvað að segja við að hreyfa slíkt skip úr stað. En það er nú samt svoleiðis, hæstv. forseti, að þar sem siglingaleiðir slíkra skipa eru nærri landi, ég tala nú ekki um þar sem þau hyggjast leita landvars eða taka höfn, þarf mikinn viðbúnað sem við þekkjum eiginlega ekki hérlendis. Við getum samt aflað okkur reynslu á því sviði, m.a. hjá Norðmönnum.

Ég hygg að við þurfum að gera ráðstafanir til þess fyrir framtíðina, í samstarfi væntanlega við þær þjóðir sem ætla að nýta norðurhöfin eða hafa möguleika til þess að þessu leyti, að hafa hér viðbúnað til þess að geta komið í veg fyrir slys. Vel kann að vera að slíkir flutningar geti gengið mjög skaðlaust í einhver ár. Slysin geta hins vegar, því miður, alveg eins orðið á fyrsta ári eins og á tíunda árinu eða því tuttugasta. Þess vegna hvet ég hæstv. utanríkisráðherra til að taka þessi mál alvarlega. Það þarf að velta því virkilega upp hvers konar búnaður þarf að vera til hér á landi til að geta forðað okkar eigin landi frá verulegum mengunarslysum. Það væri ekkert smáslys ef stórt olíuskip ræki á okkar strendur, t.d. þar sem illgerlegt er að komast að, undir björgum eða á öðrum slíkum stöðum, eða á úthafssker eins og t.d. Kolbeinsey, þó að ólíklegt sé nú að skip hitti akkúrat á þann litla punkt sem eftir er af henni.

Ég er að vekja athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að ég held að þetta sé raunveruleg hætta. En í þessari hættu geta líka falist ákveðin tækifæri., þ.e. með því að semja um það við þjóðirnar sem ætla að standa fyrir þessari nýtingu og standa fyrir þessum flutningum að hér á landi verði komið upp ákveðnum viðbúnaði til þess að takast á við slys, aðstoða skip eða veita þeim landvar til þess að geta dælt yfir í önnur og minni flutningaskip. Það kann líka að vera kostur í þeirri stöðu sem upp kann að koma því ekki er sjálfgefið að hagkvæmt teljist að láta hin stærstu skip sigla t.d. til Bandaríkjanna eða inn á hafnir í Evrópu og einhvers staðar þarf að skipa farmi á milli skipa. Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti.

Hin hættan snýr að náttúrunýtingu okkar, náttúrunýtingu Færeyinga og Grænlendinga á fiskislóðinni og lífríkinu. Ég held að það skipti ákaflega miklu máli að að þessum málum sé hugað í tíma því illa verður við brugðist þegar slysin hafa orðið.

Hæstv. forseti. Ég vil í örstuttu máli nú í lok ræðu minnar spyrja hæstv. utanríkisráðherra um nokkuð sem örlítið er vikið að í skýrslunni varðandi norsk-íslensku síldina og nýtingu á henni, þ.e. hvort þar séu að fara fram einhverjar viðræður sem e.t.v. gætu leitt til samkomulags og þá einnig hvort utanríkisráðuneytið hafi skoðað þann möguleika að tengja saman nýtingu Norðmanna annars vegar á loðnustofninum hér við land og hins vegar síldinni. Það þarf þó ekki að vera að þessir samningar eigi saman, þ.e. loðnan og síldin Það eru miklir breytileikar í hafinu núna norðan við land. Við vitum ekki hvar loðnan heldur sig nú um stundir þó að líklegast sé vegna hærri sjávarhita að hún sé miklu meira í grænlensku lögsögunni en verið hefur á undanförnum árum, en ekki endilega í Jan Mayen lögsögunni sem Norðmenn ráða.

Þær breytingar sem eru að verða í Norðurhöfunum með hlýnandi sjó hafa veruleg áhrif á hegðun fiskstofna, ekki bara síldar, loðnu og kolmunna heldur líka m.a. rækju. Ef verulega hlýnar hér við land mun hún örugglega leita norður á bóginn. Sama má segja um grálúðu sem er frekar djúpsjávar- en kaldsjávarfiskur.

Þetta þurfa menn allt að hafa í huga í samhengi þeirra breytinga sem við lifum við. Þó að við getum ekki nákvæmlega kortlagt breytingarnar þá skiptir afar miklu máli að við stöndum vel að því að fylgja eftir rannsóknum á þeim miklu breytingum sem hafa orðið á hafsvæðinu hér við land á undanförnum árum og skoða hvernig þær tengjast sameiginlegum hagsmunum okkar og annarra ríkja og því um hvað við ætlum að semja og hvernig við ætlum að semja.