132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:53]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna sem gefur góða yfirlitsmynd af þeim verkefnum og breidd sem er í íslenskri utanríkisþjónustu og þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Á tímum hraðrar hnattvæðingar þar sem alþjóðlegt samstarf og viðskipti verða æ fjölbreyttari og umfangsmeiri er nauðsynlegt að halda úti öflugri utanríkisþjónustu til þess að gæta að og halda hagsmunum okkar Íslendinga á lofti.

Alþjóðlegt umhverfi okkar hefur breyst hratt á undanförnum árum. Þótt friðsamlegra sé um að litast í okkar heimshluta en oft áður og litlar líkur séu á stríðsátökum og hefðbundnum hernaði þjóða á milli hafa nýjar ógnir komið fram svo sem hryðjuverkavá. Þessar nýju ógnir knýja á um að hvert fullvalda ríki viðhaldi lágmarksvarnarviðbúnaði og eiga íslensk stjórnvöld nú í viðræðum við Bandaríkin um framkvæmd varnarsamningsins frá 1951. Eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra hafa íslensk stjórnvöld boðist til að axla aukna ábyrgð á vörnum landsins með auknum framlögum til reksturs Keflavíkurflugvallar og samstarfi á sviði þyrlubjörgunar. Er það vel.

Hæstv. utanríkisráðherra kom í ræðu sinni m.a. inn á hlutverk Sameinuðu þjóðanna og nauðsynlegar umbætur á þeim. Í því sambandi vil ég nefna samstarf sem við eigum með frændþjóðum okkar á Norðurlöndunum í alþjóðamálum, ekki síst innan Sameinuðu þjóðanna. Norðurlöndin hafa oftar en ekki sameiginlega hagsmuni í alþjóðamálum og standa saman á þeim vettvangi. Samstaða okkar byggir á sameiginlegri sögu og menningu og svipaðri samfélagsgerð sem endurspeglar sameiginleg gildi eins og lýðræðishyggju, frjálslyndi, jafnrétti kynjanna, jöfnuð og áherslu á réttarríkið og mannréttindi. Því höfum við átt ríka samleið með frændþjóðum okkar í starfi innan Sameinuðu þjóðanna og er framboð Íslands til öryggisráðsins einungis eitt dæmi af fjölmörgum.

Þegar Norðurlöndin og norrænt samstarf er nefnt er ekki hægt að láta hjá líða að minnast á nýafstaðið þing Norðurlandaráðs í Reykjavík sem var afskaplega vel heppnað og Íslendingum til sóma. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsmönnum Alþingis fyrir einstaklega góðan undirbúning fyrir það þing og öll störfin á þinginu sjálfu.

Virðulegur forseti. Norðurlandaráðsþingið heppnaðist afskaplega vel. Gestirnir okkar erlendu voru ánægðir með aðstöðuna og þingið eins og það gekk fyrir sig. Líklega sóttu í kringum 700 manns þetta þing og hátt í 100 blaðamenn sem gerðu Norðurlandaráðsþinginu góð skil. Í forustu Norðurlandaráðs þetta árið sem forseti Norðurlandaráðs hefur verið hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Hún hefur staðið sig með miklum sóma. Við höfum getað verið afskaplega stolt af henni í því starfi eins og öðrum Íslendingum sem hafa verið í forustu og gegnt stöðu forseta Norðurlandaráðs hingað til. Við Íslendingar höfum verið með forustu í Norðurlandaráði og lagt sérstaka áherslu á Vestur-Norðurlönd, Ísland, Grænland og Færeyjar. Það er mjög mikilvægt fyrir þessar grannþjóðir okkar og við eigum afskaplega gott samstarf við þær. Þátttaka okkar Íslendinga í samstarfi Norðurlanda er okkur mjög mikilvæg, ekki síst hvað menningarmál varðar.

Virðulegi forseti. Aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum hefur reynst einkar happadrjúgt fyrir okkur Íslendinga og stjórnvöld hafa gert vel í því að treysta viðskiptatengsl okkar við aðrar þjóðir með margháttuðum viðskiptasamningum. Þessir samningar hafa styrkt samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur verið mikil að undanförnu og eykst vonandi enn á komandi árum. Stærsti markaður okkar er Evrópa og mikilvægasti viðskiptasamningur okkar er EES-samningurinn. Jafnframt er horft til framtíðartækifæra í fjarlægari löndum eins og Indlandi og Kína þar sem hagvöxtur er með kröftugasta móti. Í því sambandi ber að fagna fyrirhuguðu sendiráði á Indlandi sem gæti orðið mikilvægt í að opna íslenskum fyrirtækjum aðgang að viðskiptalífinu þar í landi.

Virðulegi forseti. Ég vil koma aftur inn á norrænt samstarf og nefna að vinna hefur farið fram á vettvangi Norðurlandaráðs við að kortleggja þá möguleika sem Norðurlönd hafa til þess að útvista þjónustu og framleiðslu í Kína og Indlandi auk Eystrasaltsríkjanna. Þessa möguleika nýta norræn fyrirtæki sér nú og munu gera í auknum mæli í framtíðinni.

En framtíðartækifærin eru ekki einungis í fjarlægum heimshlutum. Við getum einnig litið okkur nær. Þrátt fyrir allt hefur íslenska útrásin af mestum þunga komið niður á elstu samstarfsríkjum okkar á Norðurlöndum ásamt Bretlandi. Í þessu sambandi vil ég nefna að sérstök úttekt var gerð á landamærahindrunum í atvinnulífinu á milli Norðurlandanna á þessu ári. Þrátt fyrir að viðskipti og umsvif fyrirtækja séu auðveldari innan Norðurlanda en innan EES-svæðisins sem heildar þá er það markmið norrænna stjórnmálamanna að gera Norðurlönd að einu markaðssvæði í reynd.

Virðulegur forseti. Í ræðu sinni fjallaði hæstv. utanríkisráðherra ekki sérstaklega um Eystrasaltssamstarfið en ég vil koma aðeins inn á það. Eystrasaltsráðstefnan er haldin árlega. Þar sitja fulltrúar þjóð- og hérðsþinga landa við Eystrasalt. Fimmtánda Eystrasaltsráðstefnan verður haldin á Íslandi í boði Alþingis haustið 2006. Hlutverk ráðstefnunnar er að styrkja samstarf þingmanna á Eystrasaltssvæðinu og tekur hún til umfjöllunar margvísleg málefni sem þingmenn frá þessu svæði telja mikilvæg. Umhverfismál verða að sjálfsögðu fyrirferðarmikil á þessari ráðstefnu og Alþingi hefur lagt til að 15. ráðstefnan leggi áherslu á málefni hafsins í víðu samhengi. Stjórnarnefnd hefur hafið undirbúning ráðstefnunnar og sit ég í stjórnarnefndinni fyrir hönd Alþingis.

Ísland gegnir formennsku í Eystrasaltsráðinu þangað til um mitt ár 2006 og er hæstv. utanríkisráðherra þar formaður. Við þingmennirnir höfum átt ágætt samstarf við ráðið og metum það mikils. En við leggjum samt áherslu á að auka það samstarf til að tryggja að við komum okkar sjónarmiðum á framfæri í öllum þeim málaflokkum sem ráðherrasamstarfið nær til. Stjórnarnefnd Eystrasaltsráðstefnunnar mun halda undirbúningsfund á Íslandi í byrjun 2006 og vona ég að hæstv. utanríkisráðherra hafi tækifæri til að ávarpa þann fund og ræða við þingmenn um áherslur í starfi Eystrasaltsráðsins.