132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:03]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var afskaplega athyglisverð tillaga sem kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni. Ég tel að þetta megi vel skoða því að Norðmenn eiga einmitt mjög mikið sameiginlegt með okkur á Vestur-Norðurlöndum.

Mig langar að geta þess að nefndin mín, sem er efnahags- og viðskiptanefnd Norðurlandaráðs, tók sérstaklega út samgöngur á Vestur-Norðurlöndum. Í fyrra hófum við ferð okkar með því að funda í Færeyjum og sigla til Íslands, til Seyðisfjarðar, við fórum um Norðurland og funduðum þar. Síðastliðið sumar byrjuðum við á að funda á Íslandi með flugmálayfirvöldum og fórum héðan til Grænlands og funduðum þar með þarlendum yfirvöldum sem var okkur mjög gagnlegt. Í þeirri ferð voru með okkur Norðmenn sem starfa í nefndinni. Ég held að þetta sé bara mjög vel til fundið. Ég veit að Norðmenn hafa mjög mikinn áhuga á þessum málum, sérstaklega þeir sem búa norðan til landinu. Ég minnist þess sérstaklega að ágætur sjávarútvegsráðherra Norðmanna hefur sýnt mikinn áhuga á þessu samstarfi.